Lögðu af stað í 960 km ferð um Vestfirði

57 lögðu af stað í fyrstu Westfjords way challenge keppninni, …
57 lögðu af stað í fyrstu Westfjords way challenge keppninni, en í henni er samtals hjólað um 960 km leið umhverfis Vestfirði. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Klukkan sjö í morgun lögðu 57 keppendur af stað í fimm daga hjólakeppni um Vestfirði, en um er að ræða lengstu hjólreiðakeppni ársins. Fyrir utan að vegalengdin er samtals um 960 km þá þurfa keppendur jafnframt að klifra upp meira en 14.500 metra á leiðinni, eða sem nemur tæplega sjö sinnum upp Hvannadalshnúk.

Tyler Wacker er einn skipuleggjanda keppninnar, en hann starfar hjá Háskólasetrinu á Ísafirði auk þess að reka lítið hjólaverkstæði í bænum. Keppnin ber nafnið Westfjords way challenge og er hluti af stærra verk­efni sem kall­ast Cycl­ing West­fjords og er, eins og nafnið gefur til kynna, hjólatengt verkefni fyrir alla Vestfirði og gert til að laða að ævintýraþyrsta hjólreiðaferðamenn.

Um er að ræða fjór­ar tíma­mæld­ar dag­leiðir, sem þó eru farn­ar á fimm dög­um, en hjólað er rétt­sæl­is um Vest­f­irði frá Ísaf­irði, auk þess sem farið er um Drangs­nes og Skarðsströnd og Fells­strönd. Er hver dagleið yfir 200 km, en á þeim er einnig stoppað á hverjum degi í svokölluðum menningarstoppum til að kynna sér menningu, sögu og náttúru Vestfjarða.

Þátttakendur í Westfjords way challenge.
Þátttakendur í Westfjords way challenge. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Tyler segir undirbúning hafa gengið vel og allt hafi verið tilbúið í morgun þegar lagt var af stað frá Silfurtorgi á Ísafirði, en hjólað verður inn Ísafjarðardjúpið og yfir Steingrímsfjarðarheiði að Drangsnesi. Samtals verða 22 keppendur frá Íslandi, 22 frá Norður-Ameríku, 12 frá Evrópu og einn frá Japan að sögn Tylers. Meðal keppenda er ofurhjólastjarnan Lael Wilcox, Chas Christiansen og Ingvar Ómarsson, nýkrýndur Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og tímatöku.

Tyler segir á pappír eigi fyrsta dagleiðin að vera sú léttasta, en það sé samt um 250 km leið og 2-3 þúsund metra hækkun. Stór hluti fyrstu dagleiðarinnar er á malbiki, en næstu daga verður stór hluti hennar á malarvegum eða stígum.

mbl.is