Nótt Thorberg ráðin forstöðumaður Grænvangs

Nótt Thorberg.
Nótt Thorberg. Ljósmynd/Aðsend

Nótt Thorberg hefur verið ráðin forstöðumaður Grænvangs. Nótt er með meistaragráðu í Markaðsfræðum frá Strathclyde Háskóla í Skotlandi, en hefur einnig lokið tveimur CIM diplómum frá Cambridge Marketing College og Háskólanum í Reykjavík ásamt leiðsöguprófi um Ísland.

Greint er frá ráðningunni í tilkynningu.

Þar kemur fram að Nótt er með umfangsmikla reynslu af sölu- og markaðsmálum, vöruþróun, rekstri og stjórnun.

Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir og hefur verið starfræktur í tæp þrjú ár. Hlutverk Grænvangs er að bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á því sviði, stuðla að framgangi grænna lausna og efla samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs varðandi aðgerðir í loftslagsmálum í samræmi við markmið stjórnvalda. Þá vinnur vettvangurinn, í samstarfi við Íslandsstofu, að kynningu á íslensku hugviti og þjónustu sem byggja á íslenskri orkuþekkingu og grænum lausnum.

Undanfarin fjögur ár hefur Nótt starfað hjá Icelandair, fyrst sem forstöðumaður viðskiptahollustu á sölu og markaðssviði og síðar sem forstöðumaður vara og viðskiptahollustu. Á árunum 2012-2018 starfaði hún hjá Marel, fyrst sem markaðsstjóri og síðar sem framkvæmdastjóri Marel á Íslandi. Þá starfaði hún hjá Samskipum um árabil þar sem hún leiddi söludeild innanlandssviðs og vann að fjölbreyttum verkefnum sem fulltrúi framkvæmdastjórnar og forstöðumaður hagdeildar. Þá var hún formaður Stjórnvísis um nokkurra ára skeið og er meðal stofnenda félagsins Konur í sjávarútvegi.

mbl.is