Traust eykst til Hæstaréttar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Jón Pétur

Um 89% lögmanna og ákærenda báru mikið traust til Hæstaréttar samkvæmt könnun Gallup um þjónustu dómstólanna sem unnin var að beiðni dómstólasýslunnar.

Um er að ræða hækkun um fimm prósentustig frá árinu 2019 þegar sambærileg könnun var unnin, að því er kemur fram í tilkynningu.

Netkönnunin var framkvæmd á dögunum 16. apríl til 12. maí 2022. Úrtakið var 1108 lögmenn og ákærendur en þátttökuhlutfall var 35%.

Töluvert fleiri töldu málsmeðferðartímann hæfilegan

Einnig var spurt um mat á málsmeðferðartíma hjá Hæstarétti en um 82% lögmanna og ákæranda taldi málsmeðferðartímann vera hæfilegan samanborið við 69% aðspurðra árið 2019. Þá voru um 89% lögmanna og ákærenda sammála þeirri fullyrðingu að dómar Hæstaréttar væru rökstuddir með fullnægjandi hætti samanborið við 81% á árinu 2019.

Hins vegar hefur ánægja lögmanna og kæranda með þjónustu Hæstaréttar lækkað um þrjú prósentusig frá fyrri könnun. 85% voru ánægð með þjónustuna árið 2019 en 82% árið 2022.

Kemur þá fram í tilkynningu að í svörum við opnum spurningum komu meðal annars fram ábendingar um að mikilvægt væri að huga að rafrænum gagnaskilum og huga að sveigjanlegri „opnunartíma“ Hæstaréttar með einhvers konar sjálfsafgreiðslu lögmanna við gagnaskil. Þá segir að allar ábendingarnar sem komu fram í könnunni verði teknar til nánari athugunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert