Tvö útköll að Glym

Fossinn Glymur er í Hvalfirði.
Fossinn Glymur er í Hvalfirði. Ljósmynd/Einar Skúlason

Björgunarsveitir voru tvisvar kallaðar út í dag að Glym.

Klukkan þrjú í dag voru sveitir kallaðar út en kona sem var á göngu að fossinum hrasaði og slasaðist á fæti og gat ekki gengið af sjálfsdáðum.

Segir í tilkynningu frá Landsbjörgu að fyrstu hópar frá björgunarsveitum hafi verið komnir á vettvang um klukkutíma síðar og hófust handa við að hlúa að konunni sem var á ferð með nokkuð stórum gönguhóp.

Í fyrstu var talið að konan væri óbrotin og átti því upphaflega að bera hana um 500 metra að stað þar sem sexhjól gat flutt hana að sjúkrabíl. Við frekari greiningu kom síðan í ljós að hún er öllum líkindum ökklabrotin og er björgunarfólk nú að bera hana niður gönguleiðina að sjúkrabíl.

Hrasaði 10 metra niður í gilið

Þá kemur fram í tilkynningunni að þegar fleiri björgunarsveitir voru á leið á vettvang barst önnur tilkynning frá sömu gönguleið en maður hafði hrasað um 10 metra niður í gilið og var talinn illa slasaður og voru þá fleiri sveitir kallaðar á vettvang.

Stuttu síðar var björgunarsveitarmaður sem var á leið í fyrra útkallið kominn að manninum. Maðurinn var minna slasaður en talið var og var honum fylgt á bílastæðið þaðan sem hann fór á eigin vegum á slysadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert