Vill þétt samband á skrýtnum tímum

Katrín átti klukkutímafund með forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez. Katrín ræddi …
Katrín átti klukkutímafund með forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez. Katrín ræddi við fleiri þjóðarleiðtoga í dag. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti klukkutímalangan tvíhliða fund með Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, í gær. Hún telur tímabært að styrkja samskipti ríkjanna.

Spánn er vinsæll áfangastaður Íslendinga auk þess sem mikil viðskipti fara fram milli þjóðanna, þ.e. fiskútflutningur, álútfluningur og viðskipti í ferðaþjónustu. „Samskipti stjórnvalda hafa ekki alveg náð að endurspegla þessi miklu samskipti þjóðanna og það er gagnkvæmur áhugi á að efla þau,“ segir Katrín.

Hún ræddi þá einnig við Sánchez um umhverfismál, orkumál og jafnréttismál. „Forsætisráðherra Spánar hefur staðið sig vel í að berjast fyrir jafnrétti kynjanna og verið bandamaður okkar hvað það varðar,“ segir hún. Hann hafi stuðlað að því meðal annars með lagasetningu.

Þá voru ýmis mál rædd auk Úkraínustríðsins og heimsmálanna.

Fréttaveita AFP myndaði Katrínu og Sánchez í bak og fyrir. Vel fór á með þjóðarleiðtogunum, af myndunum að dæma. 

AFP
Katrín segir samskipti ríkjanna ekki endilega hafa endurspeglað tengsl þeirra.
Katrín segir samskipti ríkjanna ekki endilega hafa endurspeglað tengsl þeirra. AFP
AFP

Tvíhliðafundir með Scholz og Macron

Þá átti Katrín í fyrsta skipti tvíhliða fund með Olaf Scholz Þýskalandskanslara, sem tók við af Angelu Merkel í lok síðasta árs. Þar bar meðal annars á góma efnahagsástand heimsins þar sem verðbólgan hefur farið vaxandi en auk þess er útlit fyrir að áformum í loftlags- og orkumálum seinki vegna stríðsins.

„Loftlagsmál og orkumál mjög ofarlega í huga allra, auðvitað er stríðið að hafa þau áhrif að það er veruleg hætta á því að það hægist á þeim áætlunum sem voru fyrir, í að ná árangri í loftlags- og orkumálum. Síðan vorum við að ræða málefni EES-samningsins,“ segir hún. 

Mikilvægt er að halda góðu sambandi við Frakkland að mati Katrínar og fundaði hún einnig með Macron Frakklandsforseta. 

„Auðvitað nýtum við tækifærin og fundum með svona lykilfólki. Við höfum verið að leggja áherslu á sambandið við Frakkland,“ segir Katrín en hún fundaði einnig með forsetanum í fyrra.

„Við höfum áhuga á því að styrkja tvíhiða samskiptin þegar kemur að loftlagsmálunum og grænu málunum en líka að halda þéttu sambandi við evrópska leiðtoga á þessum skrýtnu tímum sem við lifum, með stríð í álfunni. Það eru alltaf fjölmörg mál í hinu evrópska samstarfi sem þarf að ræða.“

Katrín hefur rætt við marga þjóðarleiðtoga á ráðstefnu NATO í …
Katrín hefur rætt við marga þjóðarleiðtoga á ráðstefnu NATO í Madríd, þar á meðal leiðtoga Frakklands, Þýskalands og Spánar. AFP
mbl.is