„Dæmigert pólitíkusasvar“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auglýsingin stríðir samt gegn lögum. Svar ráðherrans er því miður dæmigert pólitíkusasvar.“

Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, við svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, við gagnrýni hans á auglýsingu í starf talnaspekings hjá ráðuneytinu.

Eins og greint hefur verið frá er krafa í auglýsingunni um gott vald á íslensku og/eða ensku. Þetta gagnrýndi Eiríkur og að hans mati er þetta brot gegn lögum um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls þar sem er tekið fram að íslenska sé mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda. 

Áslaug gaf lítið fyrir þessa gagnrýni og benti á að hlutverk talnaspekingsins sé að vinna eingöngu með tölur, greiningu og framsetningu. „Töl­fræði er auðvitað tungu­mál sem all­ir skilja,“ sagði Áslaug í sam­tali við mbl.is í dag. 

Viðurkenndi Áslaug að varðveita þurfi íslenska tungu en benti á að um 50 þúsund erlendir ríkisborgarar eru á Íslandi sem yrðu útilokaðir með kröfu um góða íslenskukunnáttu.

Auglýsingin stríðir samt gegn lögum

Eiríkur hefur nú svarað þessu svari Áslaugar inni á hópnum Málspjalli á Facebook. Að mati Eiríks svarar Áslaug einu atriði sem hann nefndi í upprunalegri gagnrýni sinni en sleppir öllu öðru.

Segir hann það ekki geta verið að talnaspekingurinn vinni einungis með tölur og metur það sem svo að „framsetning, skilgreining og mat á mælikvörðum“ geti ekki einungis verið vinna með tölum.

Skýrslur og samskipti á ensku

Bendir Eiríkur þá á að þetta sé aðeins eitt af verkefnum starfsmannsins. Segir hann annað verkefni starfsmannsins vera árangursmat á þeim verkefnum sem ráðuneytið stýri.

Það er varla hægt að meta þau verkefni nema lesa einhverjar skýrslur um þau eða ræða við fólk sem hefur unnið að þeim. Ef starfsmaðurinn kann ekki íslensku verða þær skýrslur eða þau samskipti að vera á ensku.“

Enn fremur bendir hann á að þriðja verkefnið sé samvinna með hópum um forgangsverkefni ráðuneytisins. Að mati Eiríks getur sú samvinna ekki falist í því einu að skiptast á tölum.

Það sama segir hann um fjórða verkefnið, sem er að undirbúa fjármálaáætlun og fjárlög. Ítrekar hann þá að samskiptin verði þá að fara fram á ensku ef starfsmaðurinn kann ekki íslensku.

Í lokin tekur hann fyrir fimmta verkefni starfsmannsins sem er að miðla upplýsingum innan og utan ráðuneytisins og segir það sama og áður, að sú miðlun geti ekki falist í að senda aðeins frá sér tölur. 

Allt þetta hlýtur að leiða til þess að vinna við verkefni sem starfsmaðurinn kemur að verður að vera á ensku að miklu leyti, sem er andstætt þeirri lagagrein sem segir að íslenska sé tungumál stjórnvalda.“ 

„Ekkert verið að tala um fullkomna íslensku“

Eiríkur viðurkennir þó að mikilvægt sé að bera tillit og koma til móts við þá 50 þúsund erlendu ríkisborgara sem búa hér á landi. Áslaug tók fram í svari sínu við gagnrýni Eiríks að mikilvægt væri að hið opinbera myndi ekki útiloka þennan hóp frá störfum.

„Það má líka spyrja sig hvort það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að útiloka þá sem ekki tala fullkomna íslensku frá stórum hluta starfa,“ sagði Áslaug í svari sínu.

Við þessu segir Eiríkur: „Það var ekkert verið að tala um fullkomna íslensku.“

Að öðru leyti tekur Eiríkur undir mál Áslaugar og undirstrikar mikilvægi þess að ræða stöðu ensku og annarra erlendra tungumála í íslensku málsamfélagi.

Ég vona að þetta mál verði hvatning til að hefja þá umræðu en það breytir ekki því að ég tel ótvírætt að umrædd auglýsing ráðuneytisins gangi gegn lögum. Svo getur fólk haft þá skoðun að lögin ættu að vera öðruvísi.

mbl.is