Eiríkur gefi sér að starfsmaðurinn muni rita texta

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutverk þess starfsmanns sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra auglýsir eftir, og þarf ekki að vera íslenskumælandi, er að vinna eingöngu með tölur, greiningu og framsetningu.

„Tölfræði er auðvitað tungumál sem allir skilja,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, hefur gagnrýnt starfsauglýsingu ráðuneytisins og viðrað efasemdir um það hvort ráðherra hafi farið að lögum.

Engin samskipti við almenning

Í auglýsingunni er miðlun upplýsinga, hvort tveggja innan og utan ráðuneytis, talin upp á meðal helstu verkefna starfsmannsins. Á sama tíma er gerð krafa um gott valda á íslensku og/eða ensku.

„Eiríkur gefur sér að starfsmaðurinn sé að fara að rita texta,“ segir Áslaug og bendir á að viðkomandi starf feli ekki í sér nein samskipti við almenning eða ritun texta fyrir hönd ráðuneytisins varðandi fjárlög, enda séu ekki allir starfsmenn í slíkum verkefnum.

„Á sama tíma auglýsti ég tvær aðrar stöður þar sem krafa er gerð um íslensku vegna þess að hluti af þeirra störfum er að tjá sig á íslensku.“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimmtíu þúsund manns útilokaðir

Burtséð frá gagnrýni Eiríks, kveðst Áslaug taka undir að varðveita þurfi íslenska tungu. „Á sama tíma verður að gæta að því að það eru yfir 50 þúsund manns á Íslandi sem eru erlendir ríkisborgarar.“

Mikilvægt sé að sá hópur hafi líka aðgengi að fjölbreyttum störfum og að hið opinbera sé ekki undanskilið því að líta til þess hóps.  

„Mörg mikilvæg störf eru unnin af fólki sem er ekki með íslensku sem móðurmál en ekki á vegum ríkisins, sem á stóran hlut í vinnumarkaðnum. Við verðum að hugsa hvort við séum að taka kröfuna um íslenskukunnáttu lengra en nauðsynlegt er.“

Spurning hvort annað standist stjórnarskrá

Áslaug segist meta í hvert skipti hvort það sé til þess fallið að trufla starfsemi ráðuneytisins að viðkomandi sérfræðingur tali ekki fullkomna íslensku, litla eða jafnvel enga. 

„Við erum alltaf að tala um fjölbreytileika og aðgengi fjölbreyttra hópa að störfum, á hið opinbera að vera undanþegið þeirri kröfu?“ spyr hún. 

Hún kveðst vonast til að þetta verði til þess að fólk hugsi hvort það sé raunverulega nauðsynlegt að gera kröfu um íslenskukunnáttu í öllum störfum. 

„Það má líka spyrja sig hvort það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að útiloka þá sem ekki tala fullkomna íslensku frá stórum hluta starfa.“

mbl.is