Fá tvo þræði að láni frá NATO

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans. Ljósmynd/Aðsend

Ljósleiðarinn og utanríkisráðuneytið hafa samið um afnot Ljósleiðarans af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem liggur hringinn í kringum Ísland. Þetta kemur fram í tilkynningu sem að Ljósleiðarinn sendi frá sér í dag.

Þar segir að þessi samningur muni koma til með að marka vatnaskil í starfsemi Ljósleiðarans. Samningurinn er til tíu ára með möguleika á frekari framlengingu. 

„Við erum nú enn betur í stakk búin að þjóna okkar viðskiptavinum sem eru m.a. fjarskiptafyrirtækin. Með þessu erum við að skapa ný tækifæri við tengingu heimila, fyrirtækja og stofnana á svæðum sem ekki hafa notið okkar þjónustu eða ljósleiðaratenginga til þessa,“ er haft eftir Erling Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Ljósleiðarans.

Tryggja framþróun og öryggi í fjarskiptum

Í tilkynningunni kemur fram að Ljósleiðarinn vinni að uppbyggingu á nýjum landshring til að tryggja framþróun í öryggi í fjarskiptum. Segir Erling vera mikla þörf á fleiri þráðum og víðfeðmara kerfi en það sem strengur Atlantshafsbandalagsins býður upp á. 

Uppbygging Ljósleiðarans á nýjum landshring mun gera landið betur í stakk búið fyrir síauknar kröfur framtíðarinnar. Það mun auka samkeppni á fjarskiptamarkaði, styðja við þéttingu farsímadreifikerfa, m.a. við þjóðveginn, uppfærslu í 5G og mæta þörfum neytenda um aukna bandbreidd og stöðugleika í gagnaflutningum.

Samhliða þessu hefur stjórn Ljósleiðarans ákveðið að fela framkvæmdastjóra félagsins undirbúning að aukningu hlutafjár félagsins. Segir í tilkynningunni að þetta muni gera félaginu kleift að nýta þau tækifæri fjárfestinga sem bjóðast við uppbyggingu landshrings. 

mbl.is