Kostaði ríkissjóð rúmlega 14 milljónir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Hari

Dómsmálið sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, höfðaði til að hnekkja úrskurði kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar hennar í stöðu ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytið árið 2019, kostaði ríkissjóð fjórtán milljónir og 298 þúsund krónur. 

Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur þingkonu Viðreisnar um kostnað dómsmáls íslenska ríkisins á hendur umsækjanda um stöðu ráðuneytisstjóra hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu árið 2019. 

Eins og greint hefur verið frá úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála að ráðning Lilju í stöðu ráðuneytisstjóra árið 2019 hefði brotið gegn jafnréttislögum þegar Lilja skipaði Pál Magnússon, fyrrverandi bæjarritara Kópavogsbæjar, í stöðuna í stað þess að skipa Hafdísi Helgu Ólafsdóttur.

Sátt náðist í málinu

Lilja höfðaði þá mál sem ráðherra gegn Hafdísi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að reyna fá úrskurðinn ógildan. Héraðsdómur hafnaði kröfu Lilju og stóð því úrskurðinn óbreyttur og Lilja dæmd til að greiða Hafdísi málskostnað upp á 4,5 milljónir. 

Málinu var síðan áfrýjað til Landsréttar, en áður en það var tekið til meðferðar þar náðist sátt í málinu, að frumkvæði Hafdísar. Í sáttinni fólst greiðsla miskabóta að upphæð 2,3 milljóna króna til hennar. 

14 milljónir í heildina

„Hver var heildarkostnaður ríkissjóðs vegna dómsmáls íslenska ríkisins á hendur umsækjanda um stöðu ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti sem auglýst var til umsóknar 8. júní 2019?“

Svona hljóðar upphaf fyrirspurnar Þorbjargar. Hún óskaði eftir upplýsingum um kostnað málsins vegna meðferðar hjá kærunefnd jafnréttismála, vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi og vegna áfrýjunar og meðferðar málsins í Landsrétti.

Þar að auki óskaði hún eftir upplýsingum um samkomulagið sem var gert við stefndu í aðdraganda þess að fallið var frá málinu, áður en til málflutnings kom.

Kemur þá fram í svari Ásmundar að heildarkostnaður dómsmálsins hafi numið átta milljónum og 732 þúsund krónum. Við það bættust fimm milljónir og 565 þúsund krónur vegna frekari meðferðar málsins og áfrýjunar til Landsréttar.

Í lokin kemur fram að útlagður kostnaður vegna meðferðar málsins hjá kærunefnd jafnréttismála hafi verið enginn.

mbl.is