Með nagladekk en án ökuréttinda

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan hafði afskipti af ökumanni miðsvæðis í Reykjavík í gær vegna þess að bíllinn sem hann keyrði var enn á nagladekkjum. Vildi ekki til betur en svo að maðurinn reyndist vera án ökuréttinda. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Þar segir að lögreglunni hafi borist tilkynning um tvö rafskútuslys á kvöldvaktinni. Meiðsl ökumannanna voru minniháttar en sjúkrabíll var kallaður til í bæði skiptin og var annar ökumannanna færður á slysadeild til aðhlynningar. 

Einnig barst lögreglu tilkynning um umferðarslys miðsvæðis þegar ökumaður bifhjóls missti stjórn á því. Hann er grunaður um ölvun við akstur. 

Nokkrir fleiri voru stöðvaðir vegna gruns um slíkt og hafði einn þeirra orðið valdur að umferðaróhappi. Sá sefur nú í fangageymslu. 

Heimilisofbeldi og eignaspjöll

Fleiri ökumenn á tveimur hjólum lentu í honum kröppum í gærkvöldi og í nótt en ökumaður á svæði lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ féll af vespu sinni í akstri. Hann var fluttur með sjúkrabíl en meiðsli hans voru minniháttar.

Maður var handtekinn í nótt á svæði lögreglunnar í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ vegna rannsóknar á heimilisofbeldi. Sá var einnig vistaður í fangageymslu.

Annar var handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna slagsmála, eignaspjalla o.fl. Hann hélt svo uppteknum hætti og reyndi að sparka í lögreglumenn við flutning á lögreglustöð. „Hann gistir þar til hann verður viðræðuhæfur,“ segir í dagbók lögreglu.

mbl.is