Naloxone nefúði verði aðgengilegur um allt land og notendum að kostnaðarlausu

Naloxone er hvorki ávanabindandi né hættulegt og eina ábendingin fyrir …
Naloxone er hvorki ávanabindandi né hættulegt og eina ábendingin fyrir notkun þess er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíðóða sem kemur fram sem öndunarbæling og/eða bæling á miðtaugakerfinu. mbl.is/Valli

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Landspítala vinnur að því að gera lyfið Naloxone í nefúðaformi aðgengilegt um allt land, þannig að tilteknir aðilar hafi það til reiðu þegar á þarf að halda. Lyfið er notað þegar þörf er á tafarlausri neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða sem valdið getur öndunarstoppi og dauða.

Landspítali bauð lyfið út fyrr í vor sem var forsenda þess að unnt væri að dreifa því gjaldfrjálst til notenda. Frá og með 1. júlí næstkomandi mun heilbrigðisráðuneytið greiða allan kostnað vegna lyfsins sem þar með verður notendum að kostnaðarlausu, að því er heilbrigðisráðuneytið greinir frá. 

Naloxone er ávísanaskylt og hefur notkun þess lengst af verið bundin við að læknar ávísuðu því beint til sjúklings. Fyrr á þessu ári lagði Lyfjastofnun til breytingu á því verklagi og benti á möguleikann á því að læknar gætu ávísað lyfinu til fyrirtækis eða stofnunar sem veita fólki sem glímir við ópíðóðafíkn og/eða aðstandendum þeirra þjónustu. Í kjölfarið var lyfið gert aðgengilegt hjá skaðaminnkunarúrræðinu Frú Ragnheiði og neyslurýminu Ylju.

Naloxone er hvorki ávanabindandi né hættulegt og eina ábendingin fyrir notkun þess er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíðóða sem kemur fram sem öndunarbæling og/eða bæling á miðtaugakerfinu. Eftir sem áður þarf að koma viðkomandi undir læknishendur, segir ennfremur. 

Reynsla erlendis hefur sýnt að með greiðu aðgengi að lyfinu …
Reynsla erlendis hefur sýnt að með greiðu aðgengi að lyfinu megi draga úr dauðsföllum vegna ofneyslu ópíóða. mbl.is/Valgarður Gíslason

Nú er unnið að því að gera tilteknum aðilum um allt land kleift að hafa lyfið til reiðu og geta þeir þá dreift lyfinu áfram eftir þörfum en bera jafnframt þá skyldu að sinna fræðslu um notkun lyfsins í bráðaaðstæðum. Gert er ráð fyrir að þessi þjónusta verði nýtt m.a. hjá eftirtöldum aðilum:

  • Rauða krossi Íslands /Frú Ragnheiði og Ylju
  • Lögreglu
  • Heilsugæslum
  • Björgunarsveitum
  • Félagsþjónustu sveitarfélaga og úrræða á þeirra vegum sem koma að þjónustu við einstaklinga með ópíóðafíkn

Mikilvægt skaðaminnkandi úrræði

„Greiðara aðgengi að Naloxone í nefúðaformi er mikilvægt skaðaminnkandi úrræði fyrir jaðarsettan hóp einstaklinga sem nota ópíóða en ofnotkun þeirra er vaxandi vandamál hér á landi líkt og víða annars staðar. Ópíóíðar eru mjög ávanabindandi og þekkt að einstaklingar þróa hratt með sér fíkn og þörf fyrir sífellt stærri skammta með ört vaxandi hættu á ofnotkun sem leiðir til öndunarstopps. Þeir sem reykja eða sprauta ópíóíðum í æð eru stærsti áhættuhópurinn. Víða erlendis hafa stjórnvöld brugðist við faraldri ópíóða með því að auka aðgengi að Naloxone. Með þessum aðgerðum er verið að fylgja því fordæmi og hefur verkefnið verið mótað að norskri fyrirmynd.

Reynsla erlendis hefur sýnt að með greiðu aðgengi að lyfinu megi draga úr dauðsföllum vegna ofneyslu ópíóða,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert