Rússnesk lygi sem menn á Vesturlöndum falli fyrir

Baldur Þórhallsson.
Baldur Þórhallsson. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Það er alvarlegt og misvísandi, svo vægt sé til orða tekið, að bera áróður rússneskra ríkismiðla saman við umfjöllun vestrænna fjölmiðla, að sögn Baldurs Þórhallssonar prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. 

Halldór Armand Ásgeirsson birti pistil á vef Rúv í gær þar sem hann gagnrýndi það hvernig vestræn ríki hafa tekið upp á því að útiloka rússneska fjölmiðla og þar með stýra umræðunni með ritskoðun sem sé engu skárri en sú ritskoðun sem vestræn ríki gagnrýna að beitt sé í Rússlandi og Kína. 

„Þótt ég viti alveg jafn vel og góði dátinn Svejk að ég er hreinræktaður hálfviti, þá tel ég mig samt alveg geta horfst í augu við rússneskan áróður og rússneskt bull alveg eins og ég horfist í augu við vestrænan áróður og vestrænt bull í fjölmiðlum á hverjum einasta degi,“ skrifaði hann meðal annars. 

Ekki hægt að bera þetta saman

Baldur kveðst geta tekið undir að það orki tvímælis að banna umfjöllun frá tilteknum miðlum. Á sama tíma verði að spyrja sig spurninga um það hversu langt slíkir miðlar megi ganga í því að dreifa áróðri og lygum.  Það þurfi einhversstaðar að grípa inn í en vegurinn þarna á milli sé vandrataður. 

Baldur hefur áhyggjur af því hvernig fólk sé farið, beint eða óbeint, að halda því fram að vestrænir miðlar bjóði upp á sambærilegan áróður og rangfærslur og greina megi í umfjöllun rússneskra ríkismiðla. Ekki sé hægt að bera þessa miðla saman. 

Hann kveðst hafa fylgst vel með alþjóðlegum fjölmiðlum, bæði frjálsum og ríkisreknum, einkum umfjöllun þeirra í tengslum við stríðið og aðdraganda þess, frá því í október. 

„Mín upplifun er sú að þeir séu faglegir og leggi sig eindregið fram um að gæta óhlutdrægni í umfjöllun. Leitast er við byggja aðeins á traustum og staðfestum heimildum.“

Hann segir að BBC, ríkismiðill Breta sé einn vandaðasti fjölmiðill sem fyrirfinnist, þar sé farið varlega í yfirlýsingar og viðkvæmnin sé mikil þegar komi að því að birta tilteknar upplýsingar. „Rússneskir miðlar eru aftur á móti settir upp sem áróðursmaskínur.“

Halldór Armand birti pistil á Rúv í gær þar sem …
Halldór Armand birti pistil á Rúv í gær þar sem hann lýsti þeim sjónarmiðum að rétt rétt væri fyrir vestrænar þjóðir að líta í eigin barm. Kristinn Magnússon

Öllu snúið á hvolf

Innrás Rússlands í Úkraínu hefur ekkert með útþenslu Atlantshafsbandalagsins að gera, en hér er um að ræða birtingarmynd nýrrar útþenslustefnu Rússlands, að mati Baldurs. 

Í pistli sínum vakti Halldór máls á því að það sem væri siðlaust og illt gæti átt sér tilefni, sögu eða ögrun, „sem í þessu tilviki er auðvitað linnulaus útþensla NATO þvert á öll fyrri loforð inn í bakgarð Rússa, sem full ástæða er til þess að ræða“.

Baldur telur að hér sé um að ræða rússneskan áróður og lygi sem menn á Vesturlöndum falli fyrir. Með slíkri orðræðu sé öllu snúið á hvolf. 

„Þegar Tékkland, Ungverjaland og Pólland vildu ganga inn í NATO fengu þau neitun frá bandalagsríkjunum þar til Pútín gaf grænt ljós á inngöngu þeirra. Sama gilti um inngöngu Eystrasaltsríkjanna, Pútín hafði ekkert út á það að setja, Rússland var því ekki meira aðþrengt en það.“

Neitunarvald Pútín

Eftir að afstaða Pútín til inngöngu Eystrasaltsríkjanna varð ljós breytti NATO um stefnu þannig að áhersla var nú lögð á að leyfa ríkjum að ákveða sjálf, í krafti fullveldis síns, hvernig þau vildu haga sinni utanríkisstefnu og bandalagsríkin skyldu hætta að streitast gegn aðild tiltekinna ríkja. 

Þá bendir hann á að árið 2008 hafi Úkraína og Georgía lýst yfir áhuga á að ganga inn í NATO, sem hafi gefið vilyrði fyrir því en hætt við vegna viðbragða rússneskra yfirvalda. „Pútín hefur í raun haft neitunarvald um inngöngu þeirra í NATO. Úkraína er ekkert á leið í NATO og hefur ekki verið það síðan 2008.“

Baldur telur að frá innlimun Krímskaga hafi Rússland byrjað að vinna samkvæmt nýrri útþenslustefnu. „Finnar og Svíar vildu ekki tilheyra NATO til þessa því þeir töldu enga ógn stafa af Rússum, það er því ekki fyrr en þeir horfa upp á þessa útþenslustefnu hjá Pútín sem þeir stíga þetta skref.“

Á meðan hafi Eystrasaltsríkin verið brennd af samskiptum við Rússland, eftir langa innlimun í Sovétríkjunum, og ekki treyst ráðamönnum þar.

Ísland í hættu ef átök breiðast út

Halldór gagnrýndi vígvæðingu Íslands í lokaorðum pistilsins, en þjóðaröryggisráð metur nú þörfina á því að koma upp viðvarandi varnarliði á Íslandi. 

Baldur segir að aukin umsvif séu á öryggissvæðinu í Keflavík og fyrirhuguð uppbygging þar. Það sé komið til vegna aukinnar umferðar rússneskra kafbáta í Norður-Atlantshafi. 

Árið 2014 hafi bandarískar hersveitir farið í 21 eftirlitsferð í leit að rússneskum kafbátum eftir meldingu um óþekkta umferð. Í ár voru slíkar ferðir orðnar daglegt brauð, sem sýnir það hve mikið rússneski herinn hefur aukið umsvif sín á þessu svæði. 

„Við erum í hættu ef átökin breiðast út en hættan á því hefur ekki verið meiri frá árinu 1948.“

Þá bendir Baldur á að ekki sé hægt að ganga út frá því að ráðamenn í Rússlandi og Kína hegði sér á grundvelli sömu gilda og viðmiða og tíðkast meðal vestrænna þjóða. „Auðvitað vill enginn vígvæðingu en ráðamenn í Moskvu skilja ekkert nema afl.“

Rússneskur hermaður skammt frá Azovstal-verksmiðjunni í Úkraínu.
Rússneskur hermaður skammt frá Azovstal-verksmiðjunni í Úkraínu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina