Svari hvort sveitirnar fari í eyði

mbl.is/Sigurður Bogi

„Stóra spurningin sem við stöndum andspænis nú og svara þarf er einfaldlega sú hvort halda eigi sveitum í byggð eða láta þær fara í eyði,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason oddviti Dalabyggðar. Sveitarstjórn þar hefur óskað eftir fundi með innviðaráðherra til að fara yfir stöðu mála í landbúnaði með tilliti til stöðu byggðar. Tilefni væntanlegs fundar eru niðurstöður í nýrri samantekt Byggðastofnunar um rekstrarafkomu í sauðfjárbúskap, sem hefur verið í mínus frá árinu 2018. Ekki er útlit fyrir að rekstur þessi batni á næstu árum og að óbreyttu eru forsendur búskapar brostnar.

Byggðastofnun greinir frá því að rúmlega þriðjungur sauðfjárbænda með 300 fjár eða meira sé kominn yfir sextugt; fólk sem muni samkvæmt öllu eðlilegu bregða búi á næstu árum. Margir gætu þó hætt fyrr, samanber að niðurstaðan af rekstri sauðfjárbúa af meðalstærð er í dag bullandi tap. Getur verið um 50% af heildarveltu, sé allt talið með. Hætti fólk búskap getur slíkt svo veikt alla stöðu mála í byggðum og í því sambandi nefnir Byggðastofnun til dæmis Reykhólasveit, Dali, Strandir og Húnavatnssýslur.

Eyjólfur Ingvi Bjarnason oddviti í Dalabyggð.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason oddviti í Dalabyggð. mbl.is/Sigurður Bogi

„Staðan í sveitunum er alvarleg og ríkið þarf að koma að málum með almennum aðgerðum, þannig að stoðir atvinnulífs verði fleiri. Landbúnaðurinn hér um slóðir er mikilvæg stoð og með mörgum slíkum myndast sú heild sem kallast samfélag,“ segir Eyjólfur Ingvi. Á síðasta ári voru 24 þúsund vetrarfóðraðar kindur á bæjum í Dalabyggð og á rúmlega fjörutíu heimilum er sá búskapur aðalstarf fólks.

Ítarlegri umfjöllun um málið er að finna í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert