„Á barmi taugaáfalls og mikillar gleði“

Sigurgeir Skafti Flosason, framkvæmdastjóri Allt í blóma, og Unnur Birna …
Sigurgeir Skafti Flosason, framkvæmdastjóri Allt í blóma, og Unnur Birna Björnsdóttir, tónlistarkona og kærasta Sigurgeirs. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistar- og athafnamaðurinn Sigurgeir Skafti Flosason er framkvæmdastjóri hátíðarinnar Allt í blóma sem haldin verður um helgina í Hveragerði. Hátíðin er að mestu leyti haldin vegna frumkvæðis hans.

Sigurgeir Skafti segir að verið sé að ganga frá síðustu lausum endum í undirbúningi hátíðarinnar og bætir við kíminn að hann sé „á barmi taugaáfalls og mikillar gleði.“

„Eins og staðan er núna eru fimm miðar lausir á GÓSS á sunnudaginn, eitthvað eftir á Magnús og Jóhann og svo troðum við inn eins og við getum á Reykjavíkurdætur sem byrja klukkan 5 í dag,“ segir Sigurgeir.

Dagskráin er þétt um helgina en einnig kemur fram á fríum tónleikum á laugardaginn Jón Jónsson, Guðrún Árný, Jógvan Hansen, Unnur Birna og Stefán Jakobsson. Í kjölfarið verður dansleikur í tjaldinu í Listigarðinum þar sem Stefán Hilmarsson, Gunnar Ólafsson og Þórir Geir ásamt hljómsveit troða upp.

Allt í blóma í Hveragerði.
Allt í blóma í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

Hátíðin fyrst haldin því bærinn byggði svið

Fjölskyldu-, skemmti- og tónlistarhátíðin Allt í blóma var fyrst haldin í fyrra en Sigurgeir Skafti á heiðurinn á hugmyndinni og er aðal skipuleggjandi hátíðarinnar.

„Hveragerðisbær fór í það í fyrra að byggja svið í Lystigarðinum. Ég sagðist geta keypt ofan á þetta svo við gætum gert „gigg“ hérna. Þannig ég fór bara og gerði það. Og ég er að gera það aftur núna en aðeins öðruvísi, er með útitjald og svona aðeins þægilegra að mörgu leyti,“ segir Sigurgeir Skafti.

„Þetta kemur aðeins í staðinn fyrir Blóm í bæ. Við ætlum að reyna að setja þetta saman á næsta ári en Blóm í bæ er meira garðyrkjusýning sem hefur ekki verið síðustu þrjú ár að ég held.“

Dagskrána má sjá í heild sinni á Facebook síðu viðburðarins og miðasala er á tix.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert