Geta ekki greitt reikninga

Mörg mál og allt of fátt starfsfólk veldur því að …
Mörg mál og allt of fátt starfsfólk veldur því að afgreiðsla mála hefur dregist hjá Réttindagæslu fatlaðs fólks. Myndin er úr safni. mbl.is/Hákon Pálsson

Mörg mál og allt of fátt starfsfólk veldur því að afgreiðsla mála hefur dregist hjá Réttindagæslu fatlaðs fólks. Það á þátt í því að ekki hefur tekist að skipa tímabundna persónulega talsmenn til að annast fjármál fólks sem ekki er fært um það sjálft.

Kristín Traustadóttir, móðir fjölfatlaðrar stúlku á Selfossi, segir frá baráttu fjölskyldunnar við kerfið í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær.

Frá því dóttirin varð 16 ára hafa þau oft lent í erfiðleikum með að fá lyf hennar afhent úr apóteki vegna umboðsleysis. Þegar 18 ára aldurinn nálgaðist tókst þeim að stofna bankareikning í hennar nafni. Þeim hefur hins vegar ekki tekist að fá aðgang að heimabankanum til að greiða reikninga sem þar stofnast á hennar nafni. Lýsir Kristín þeim flækjum sem orðið hafi á vegi þeirra í því efni og ekki hefur tekist að leysa úr. Þau þurfi að fara á námskeið til að geta orðið persónulegir talsmenn dótturinnar. Hins vegar hafi ekki verið haldin nein námskeið.

Enn ekki hitt stúlkuna

Þá var þeim beint á að mæta á skrifstofu Réttindagæslu fatlaðs fólks á Seltjarnarnesi svo hún gæti skrifað undir umboð. Þegar starfsmanni var bent á að stúlkan hefði ekki burði til að skrifa undir hafi starfsmaðurinn boðað að hann myndi hitta fjölskylduna þegar hann mætti vera að, til að fá samþykki dótturinnar með öðrum hætti, en enn hafi ekkert gerst í því. Á meðan safnist skuldir hennar upp. 

Jón Þorsteinn Sigurðsson, yfirmaður réttindagæslumanna fatlaðs fólks, segir þegar leitað er skýringa að í tilvikum eins og þarna er nefnt sé fólk aðstoðað við að gera samninga um tímabundinn persónulegan talsmann. Það hefði átt að gerast. Hins vegar sé mikið að gera og of fátt starfsfólk.

Varðandi námskeið fyrir fólk sem óskar eftir að gerast tímabundnir persónulegir talsmenn fatlaðs fólks og annast meðal annars fjármál þess segir Jón Þorsteinn að dregist hafi að halda þau vegna kórónuveirufaraldursins og fleiri atriða. Stefnt sé að netnámskeiði í ágúst.

Uppfært

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að skuldir konunnar væru að safnast upp og hún væri að hefja vegferð sína sem fullorðinn einstaklingur á skuldalista Creditinfo. Forsvarsmenn Creditinfo benda aftur á móti á að það sé ekkert til sem heitir skuldalisti Creditinfo. Leiðréttist þetta því hér með.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert