Íslendingar sýna „borgaralega óhegðun undir stýri“

Umferðarátakið „ferðumst örugg“ hófst í dag.
Umferðarátakið „ferðumst örugg“ hófst í dag. mbl.is/Óttar

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur hafið umferðarátakið „ferðumst örugg“ í samstarfi við Sjóvá, Olís og Samgöngustofu. Átakið felst í því að fræða landsmenn um öryggi á þjóðvegum landsins og á hálendinu.

Svanfríður Anna Lárusdóttir, verkefnastjóri slysavarna, segir í samtali við mbl.is að samkvæmt Gallup-könnun frá árinu 2021 séu Íslendingar farnir að sýna „borgaralega óhegðun undir stýri“.

Hún nefnir að könnunin hafi sýnt að margir virði ekki hámarkshraða og að fólki finnist minna mál að vera í símanum undir stýri.

„Ég veit ekki hvort það er heimsfaraldurinn, það er eiginlega engin skýring, en allavega er mikill munur á þessari nýjustu könnun á okkar eigin viðhorfi,“ segir Svanfríður en könnunin er gerð árlega fyrir Samgöngustofu.

Sjálfboðaliðar Landsbjörg voru við Olís Norðlingaholti að taka ferðalanga tali.
Sjálfboðaliðar Landsbjörg voru við Olís Norðlingaholti að taka ferðalanga tali. mbl.is/Óttar

Vera ábyrgir undir stýri

„Við vorum að setja átakið í gang sem við ætlum að vera í í allt sumar. Um leið minnum við á að hálendisvaktin var að fara í gang,“ segir Svanfríður en búið er að opna vaktina í Landmannalaugum, þá verður einnig vakt í Drekagili, Sprengisandi og Skaftafelli.

„Við ætlum líka að vera við þjóðveginn í sumar og á bæjarhátíðum að dreifa bæklingi sem við köllum „ferðumst örugglega“ sem er með ábendingum til bílstjóra og annarra farþega. Þá eru einnig leikir og skemmtilegheit sem farþegarnir í aftursætunum geta dundað sér við á ferðinni. Þá erum við einnig að dreifa framrúðuplástri í leiðinni og spjalla við fólk um að það sé á ábyrgð okkar allra að haga okkur á öruggan hátt í umferðinni.“

Svanfríður nefnir að bæklingurinn sé á íslensku og sé því miðaður að íslenskumælandi einstaklingum en átakið „Safe travel“ sem hefur verið í gangi í nokkur ár er miðað að erlendum ferðamönnum. 

„Við erum með sama fókusinn á erlendu ferðamennina eins og við höfum verið með en erum nú að bæta smá skilaboðum til okkar sjálfra,“ segir hún og bætir við að mikilvægt sé að minna íslenska bílstjóra á að vera ábyrgir undir stýri.

Björgunarsveitir munu dreifa bæklingi í allt sumar.
Björgunarsveitir munu dreifa bæklingi í allt sumar. mbl.is/Óttar

Sjö daga vakt á hálendinu

Svanfríður er bráðum á leið á hálendisvaktina sem felst í sjö daga vakt á tilgreindum stað. Björgunarsveitir um allt land skipta vaktinni á milli sín yfir sumarið. 

„Alla vikuna er fólk að stunda slysavarnir. Það er verið að fræða ferðamenn og kenna þeim að fara yfir ár og  veita upplýsingar og fræðslu. Þá erum við viðbúin ef það kemur útkall. Við erum að stytta viðbragðstíma með því að hafa sveitir á hálendinu,“ segir hún og bætir við að vegalengdirnar geti verið langar og því mikilvægt að hafa fólk á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert