Leiðrétta ofgreidd laun - dómarar mótmæla

Fjársýsla ríkisins mun leiðrétta ofgreidd laun 260 opinberra starfsmanna eftir að mistök komu í ljós. Nemur heildarupphæðin um 105 milljónum kr. Fjársýslan hefur beðið hlutaðeigandi velvirðingar á því óhagræði sem þetta kunni að hafa í för með sér. Dómarafélag Íslands mótmælir harðlega þessari ákvörðun sem þeir segja að sé ólögmæt.

Fram kemur á vef fjársýslunnar, að í lögum nr. 79/2019 sé kveðið á um að laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekinna embættismanna ríkisins skuli taka breytingum 1. júlí ár hvert samkvæmt hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júlí ár hvert.

Fjársýsla ríkisins uppfærir krónutölufjárhæð launa þessa hóps ár hvert til samræmis við tölur Hagstofunnar í samráði við kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

Ekki notast við lögbundið viðmið

„Í ljós hefur komið að allt frá gildistöku laganna hefur viðmið við framkvæmdina verið launavísitala ríkisstarfsmanna, en ekki það viðmið sem tilgreint er í lögunum, þ.e. meðaltalsbreyting reglulegra launa ríkisstarfsmanna milli ára.

Við framkvæmd hækkunar launa þessa hóps hefur því ekki verið notast við lögbundið viðmið frá gildistöku laganna og laun hækkað meira en þau áttu að gera. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið ákvörðun um leiðréttingu vegna þessa og að farið verði fram á að viðkomandi endurgreiði ofgreidd laun frá gildistöku laganna,“ segir á vef Fjársýslu ríkisins. 

260 fengið send bréf

Þá kemur fram, að heildarfjöldi einstaklinga sem hafi fengið laun sem leiðrétt verði sé um 260 og hafi þeim verið send bréf um þetta efni, um hvaða upphæðir ræðir í hverju tilviki og útfærslu á innheimtu. Verður greiðslan ýmist dregin af launum eða kröfur stofnaðar í jöfnum hlutum í 12 mánuði.

„Eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar á því óhagræði sem þetta kann að hafa í för með sér og mun Fjársýslan gera það sem hægt er til að aðstoða hvern og einn.“

Ákvörðunin sé í andstöðu við gildandi lög

Kjartan Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands, segir í færslu sem hann birti á Facebook, að sú „undarlega ákvörðun blasti við dómurum landsins í morgun að laun þeirra voru lækkuð fyrirvaralaust. Þessi lækkun mun vera í umboði fjármálaráðherra sem hefur boðað frekari og afturvirkar skerðingar á launum dómara.“

Kjartan Björgvinsson.
Kjartan Björgvinsson. mbl.is/Arnþór

Hann segir að þessi aðgerð setji alla sem reki mál á hendur ríkinu í þá stöðu að eiga von á því að framkvæmdavaldið geti lækkað laun dómara eftir eigin geðþótta. Þar með séu borgararnir sviptir réttlátri málsmeðferð og því að geta borið mál sín undir sjálfstæðan og óvilhallan dómstól í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Af þessu tilefni hafi stjórn Dómarafélags Íslands sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Dómarafélag Íslands mótmælir harðlega ólögmætri ákvörðun fjármálaráðherra um einhliða og afturvirka skerðingu á kjörum dómara. Ákvörðunin er í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara og með henni er vegið að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Aðgerðirnar fela í sér atlögu framkvæmdavaldsins að dómsvaldinu sem ekki á sér hliðstæðu í íslenskri réttarsögu.“

mbl.is