Leiðsögn um ríki Vatnajökuls

Það rétt glitti í lónið árið 1934 en það var …
Það rétt glitti í lónið árið 1934 en það var orðið 27 km2 2018. Lón eru að myndast við fleiri jökulsporða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vitum að síðasta vetur bættist um 20% meira á Vatnajökul en í meðalári. Það bráðnar heilmikið yfir sumarið en við vitum ekki fyrr en í september hvort hann eyðir öllum þeim tekjum sem hann fékk í vetur. Það hafa ekki verið nema tvö eða þrjú ár frá 1995 sem Vatnajökull hefur verið nærri núllinu. Annars hefur hann alltaf tapað. Það virðist vera langtíma tap á þessum rekstri,“ segir Helgi Björnsson, jöklafræðingur og prófessor emeritus.

Svör við spurningum ferðafólks

In the Realm of Vatnajökull (Í ríki Vatnajökuls) er heiti bókar eftir Helga og konu hans, Þóru Ellen Þórhallsdóttur, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands. „Bókin var skrifuð fyrir erlenda gesti okkar og með þá í huga,“ segir Helgi. Þau hjón eiga sumarhús í nágrenni Vatnajökuls og hafa oft fengið í heimsókn erlenda fræðimenn sem hafa viljað fræðast sem mest um landið, sögu þess og náttúru. „Við höfum verið leiðsögumenn margra erlendra gesta og fengið að kynnast því hvað þeir vilja fá að vita. Þess vegna ákváðum við að skrifa þessa bók,“ segir Helgi.

Bókinni er ætlað að veita fjölbreytta leiðsögn um Suðausturland. Forlagið gaf bókina út 2021 undir merkjum Máls og menningar. Þegar hún kom út var ferðamannastraumurinn hægur vegna heimsfaraldursins. Þrátt fyrir að vera skrifuð á ensku á efni bókarinnar ekki síður erindi til Íslendinga en útlendinga, að mati blaðamanns, og full ástæða til að gefa hana út á íslensku.

Landslag undir jöklunum sýnt

Fjöldi nýlegra og eldri ljósmynda prýðir bókina. Flestar þær nýrri eru eftir höfundana. Einnig eru margar skýringarmyndir. Meðal annars eru sýnd líkön af landslagi undir jöklum sem byggð eru á íssjármælingum sem Helgi var frumkvöðull að. Þær sýna hvernig ásýnd landsins verður ef jöklarnir hopa enn meir.

„Enginn ferðamaður sem nú fer þarna um mun lifa það að sjá þær breytingar,“ segir Helgi. „Menn sem koma að Jökulsárlóni verða forvitnir um hvað þar er að gerast. Það rétt glitti í lónið árið 1934 en það var orðið 27 ferkílómetrar árið 2018. Það stefnir í að á næstu áratugum eða öld verði þarna stöðuvatn sem nær upp að Esjufjöllum.

Fólki þykir einnig áhugavert að vita að undir Skeiðarárjökli er álíka renna sem nær um 20 km inn í landið. Það eru að myndast lón framan við alla þessa jökulsporða. Nú sést bara syðsti oddinn af þeim feikistóru stöðuvötnum sem þarna munu myndast og stækka ár frá ári. Það kelfir núna í öll þessi vötn.“

Jöklarnir urðu stærstir, frá því að landið byggðist, í lok Litlu ísaldar um 1890. Þeir höfðu verið mun minni við landnám. Helgi segir að landnámsbæirnir Breiðá og Fjall hafi verið á vel gróinni Breiðumörk, sem Breiðamerkurjökull dregur nafn af. Þá voru jökulsporðarnir 10-15 km innar í landinu en nú. Það fór að kólna upp úr 1400, jöklarnir tóku að vaxa og stækkuðu alveg til 1890. Þá fóru þeir að rýrna og eru minni nú en þeir voru um árið 1600. „Vatnajökull er þó ekki orðinn jafn lítill og hann var við landnám.“

Bókin hefst á almennum inngangi þar sem sagt er frá eldvirkni og því hvernig Ísland varð til, hvernig jöklar verða til og móta landið. Einnig er fjallað um Vatnajökulsþjóðgarð, loftslag á Íslandi og viðkvæma náttúru landsins.

Fjölbreyttur fróðleikur

Meginefni bókarinnar er leiðsögn um svæðið frá vestri til austurs. Leiðarlýsingunni er skipt upp í þrjá meginkafla: Frá Kúðafljóti að Lómagnúpi, um Skeiðarársand að Jökulsárlóni og frá Jökulsárlóni að Höfn. Fremst í hverjum kafla er kort og samantekt um vegalengdir, þjónustu, gestastofur og það markverðasta sem fyrir augu ber.

Helgi segir að þegar ekið er austur hringveginn komi maður inn í ríki Vatnajökuls þegar farið er yfir brúna yfir Kúðafljót. Svo er hvert vatnsfallið af öðru alveg austur í Hornafjörð. Bókin er takmörkuð við það svæði en vatn frá Vatnajökli rennur einnig til vesturs, t.d. í Tungnaá og er veitt í Þjórsá. Einnig renna jökulár til norðurs og austurs. Vatnajökull stendur vel undir nafni og áhrifa hans gætir á stórum hluta landsins.

Leiðsögnin hefst þar sem komið er inn í Eldhraunið austan Mýrdalssands. Svo er þjóðvegi 1 (hringveginum) fylgt austur í Hornafjörð. Vakin er athygli á áhugaverðum stöðum og ýmsum fyrirbærum lýst. Einnig er sagt frá áhugaverðum stöðum sem eru skammt frá hringveginum.

Fjallað er um jökla á svæðinu, jarðfræði og eldvirkni, landmótun, flóru, fánu og gróður, sögu og menningu og líf í sveitunum sunnan jökla nú og áður fyrr. Margs konar annan fróðleik er að finna í bókinni eins og samantekt um byggingarsögu bóndabæja frá torfbæjum til nútímalegra húsa. Einnig er gerð grein fyrir nútímavæðingu samfélagsins í Öræfum frá 8. áratug 19. aldar og næstu 100 ár. Eitt skref á þeirri vegferð var þegar prestsfrúin í sveitinni eignaðist saumavél árið 1880 og um aldamótin 1900 voru komnar saumavélar á flesta bæi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »