Segir svör Bjarna ekki koma á óvart

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir svör fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn um beiðni ráðherrans um úttekt Ríkisendurskoðunar á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, ekki koma á óvart.

„Það er fátt sem kemur á óvart í svörum fjármála- og efnahagsráðherra, en það er greinilegt að fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að Ríkisendurskoðun fari með gríðarlega vítt og yfirgripsmikið hlutverk þegar kemur að eftirliti með framkvæmdavaldinu.

Hlutverk sem hlýtur þá að skarast að verulegu leyti við eftirlitshlutverk umboðsmanns Alþingis og eftirlitshlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þetta viðhorf kemur svolítið á óvart og hlýtur að kalla á frekari umræðu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bankasalan sætti mikilli gagnrýni

Eins og áður hefur verið greint frá fór sala á 22,5% hlut í Íslandsbanka fram í mars. Mikil umræða skapaðist í kjölfarið þar sem söluferlið sætti mikilli gagnrýni sem og fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem á meðal þeirra sem fjárfestu í útboðinu var einkahlutafélagið Hafsilfur sem er í eigu Benedikts Sveinssonar, föður ráðherrans. 

Í framhaldinu fór fjármála- og efnahagsráðherra þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin gerði úttekt á því hvort bankasalan hefði samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Skömmu síðar ákvað ríkisstjórnin að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins, sem sá um útboðið, yrði lögð niður.

Mikil umræða skapaðist í kjölfar sölu ríkisins.
Mikil umræða skapaðist í kjölfar sölu ríkisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Frumkvæðið á að liggja hjá stofnuninni sjálfri“

Jóhann segir að fyrirspurn hans og Kristrúnar um beiðni ráðherrans um úttekt Ríkisendurskoðunar á bankasölunni hafi verið tilkomin vegna þess afmarkaða hlutverks sem stofnuninni er ætlað samkvæmt lögum.

„Rótin að þessari fyrirspurn okkar var auðvitað það hvernig Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók fram fyrir hendurnar á Alþingi um það í hvaða farveg Íslandsbankamálið, rannsókn þess og uppgjör, færi. Í lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er ekki gert sérstaklega ráð fyrir að ráðherrar eigi með einhverjum hætti frumkvæði að athugunum Ríkisendurskoðunar.

Það kemur skýrt fram í fimmta kafla laganna að frumkvæðið á að liggja hjá stofnuninni sjálfri og hjá Alþingi, annars vegar gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og hins vegar með skýrslubeiðni frá níu þingmönnum. Þetta er augljóslega það sem vakti fyrir löggjafanum þegar lögin voru sett á sínum tíma, og þetta er í takti við sjálfstæði stofnunarinnar og stjórnskipulegt samband hennar við Alþingi.“

Kristrún Frostadóttir (fremst á myndinni), þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir (fremst á myndinni), þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumkvæði stjórnvalda plagsiður

Ein þeirra spurninga sem fylgdu fyrirspurn Jóhanns og Kristrúnar snéri að því hvort ráðherra hefði áður óskað eftir úttektum frá eftirlitsstofnunum Alþingis á tilteknum málum. Svar fjármála- og efnahagsráðherra við þeirri spurningu virðist benda til þess að svo sé.

Jóhann telur slík vinnubrögð vera plagsið sökum þess eftirlitshlutverks sem Ríkisendurskoðun gegnir gagnvart framkvæmdavaldinu.

„Það virðist hins vegar hafa skapast sú venja að framkvæmdavaldið biðji um úttektir Ríkisendurskoðunar á tilteknum málum – fjármálaráðuneytið nefnir aðallega dæmi frá síðustu öld og mér sýnist þau reyndar ekki lúta beint að ákvörðunum og stjórnsýslu ráðherra sjálfs, hvað þá að stórpólitískum hitamálum – en mér finnst þetta vera plagsiður. Ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður Alþingis og fer í umboði þess með eftirlit með fjárreiðum stjórnvalda.

Það samrýmist ákaflega illa þessu hlutverki að stjórnvöld sjálf, hinir eftirlitsskyldu aðilar, hlutist til um hvernig Alþingi og stofnanir þess rækja eftirlitshlutverk sitt gagnvart þeim. Þetta er álíka skringilegt og ef stjórnvöld færu að stunda það að biðja Umboðsmann Alþingis um að hefja frumkvæðisathuganir á hinum og þessum málum. Þannig á framkvæmdavaldið ekki að umgangast eftirlitsstofnanir sem starfa á vegum Alþingis.“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í pontu á Alþingi í …
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í pontu á Alþingi í apríl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisendurskoðun með afmarkaðri túlkun en ráðuneytið

Hann segir það ekki koma sér á óvart að Ríkisendurskoðun hafi túlkað hlutverk sitt með afmarkaðri hætti en fjármála- og efnahagsráðuneytið.

„Nú hafa úttektarspurningar Ríkisendurskoðunar verið birtar í fjölmiðlum, og af þeim má ráða að stofnunin sé ekki að rannsaka sérstaklega hvort athafnir ráðherra hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög, lög um stjórnarráð Íslands og hvort lögum um opinber fjármál hafi verið fylgt – enda samrýmist það miklu betur hlutverki Umboðsmanns Alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að kanna slík atriði, jafnvel þegar þau hafa með einum eða öðrum hætti með ráðstöfun ríkisfjármuna að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert