Sendu út rangar upplýsingar um seinkun á flugi

Flugi farþegaþotu Play frá Alicante seinkar um rúmlega þrjár klukkustundir en áætlað er að flugið fari frá Alicante rétt fyrir klukkan tvö í nótt. mbl.is ræddi við Steingrím Rúnar Guðmundsson sem er ásamt fjölskyldu sinni í fríi á Spáni. 

Hann segir óvissu ríkja hjá farþegum um ástæðu seinkunarinnar. Í tölvupósti frá Play segir að seinkunin sé vegna veðurskilyrða, en þær upplýsingar sem Steingrímur kveðst hafa fengið frá félaginu voru á þá leið að seinkunin væri vegna tafa á öðrum flugferðum í Evrópu. 

Nadine Guðrún Yag­hi, upp­lýs­inga­full­trúi Play, segir í samtali við mbl.is að ástæðan sé sú síðarnefnda. 

„Það kom vél seint í morgun frá Evrópu útaf ástandinu á flugvöllum,“ segir hún og bætir við að allt gangi hægt á völlunum vegna skort á starfsfólki. 

Nadine segir að tölvupósturinn um seinkun vegna veðurskilyrða hafi verið mistök. 

Fékk upplýsingarnar fyrst frá tengdaföður

Steingrímur segir að upplýsingar um seinkunina hafi fyrst komið frá tengdaföður hans en ekki frá Play. 

Því hafi hann haft samband við flugfélagið sem staðfesti seinkunina.

Fjölskyldan var enn í rólegheitum í borginni er blaðamaður ræddi við hann og sagðist Steingrímur ekki hafa miklar áhyggjur af seinkuninni. Níu ára dóttir hans hefði þó áhyggjur af svefninum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert