„Þekkt staðreynd á meðal slökkviliðsmanna“

mbl.is/​Hari

Bjarni Ingimarsson, varaformaður Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna (LSS) og formaður Krabbameinsnefndar, segir að yfirlýsing Alþjóðlegu rannsóknarstofnunarinnar í krabbameinsfræðum (IARC), þar sem hættuflokkun starfs slökkviliðsmanna var færð úr flokki 2B (hugsanlega krabbameinsvaldandi) yfir í flokk 1 (staðfest krabbameinsvaldandi), sé langtímabær breyting.

Hann segir að með þessari breytingu IARC sé þörf á verulegum breytingum hvað varðar aðbúnað og forvarnir slökkviliðsmanna.

Viðurkenning á löngu þekktri staðreynd

„Þetta er ákveðin viðurkenning á því sem við erum búnir að halda fram í mörg ár, og þetta er þekkt staðreynd á meðal slökkviliðsmanna og þeirra sem starfa í geiranum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir að breyting IARC þýði að nú þurfa slökkviliðsmenn sem greinast með krabbamein ekki að sannreyna að það sé af völdum starfs síns heldur sé um atvinnusjúkdóm að ræða, en með atvinnusjúkdómi er átt við sjúkdóm sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi.

„Eins og þekkist í Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada þá telst þetta atvinnusjúkdómur ef þú uppfyllir ákveðinn skilyrði.“

Ýmis verkefni liggja fyrir

Hann segir forvarnir mikilvægar svo að hægt sé að lágmarka hættuna. „Þetta er reykköfunin þar sem við erum útsettir fyrir þeim krabbameinvaldandi efnum sem eru í reyk, svo er þetta vaktavinnan sem telst óheilbrigð. Við erum útsettir fyrir díselreyk, en gallarnir okkar eru við bílanna og við stöndum við þá einnig.

Og svo er þetta andlegt og líkamlegt álag, þannig að við tikkum í öll boxin þarna. Þarna getum við búið til ákveðið starfsumhverfi sem hentar betur til slökkviliðsstarfsins."

Hann tekur fram að hugsanlega verður að endurhugsa vinnuferla slökkviliðsstöðvana hvað varðar hreinsun á menguðum búnaði.

Bjarni Ingimarsson, varaformaður LSS og formaður Krabbameinsnefndar, í slökkvibúningnum.
Bjarni Ingimarsson, varaformaður LSS og formaður Krabbameinsnefndar, í slökkvibúningnum. Ljósmynd/Helgi Finnbogason

Bjarni segir einnig vera þörf á bættri aðstöðu slökkviliðsstöðva. „Það vantar gríðarlega mikið upp á að slökkviliðsstöðvar á landinu séu rétt byggðar með tilliti til þess að taka á móti menguðum búnað í húsið, þannig að við séum með skiptingu í hreint og óhreint svæði. Það er verkefni sem kostar að öllum líkindum einhverjar hundrað milljóna að laga allar slökkvistöðvar í samræmi við þetta.“

Ýmis verkefni liggja nú fyrir eftir staðfestingu IARC að sögn Bjarna. Hann nefnir sem dæmi bætta æfingaraðstöðu, búnað og tæki til að þrífa búnaðinn, endurskoðun á lífeyrisaldrinum o.fl.

Enn hefur ekki verið sett reglugerð um bótaskyldra atvinnusjúkdóma

Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp 12. nóvember sl. sem setja á saman drög að reglugerð með yfirliti yfir bótaskylda atvinnusjúkdóma. Með breytingum á lögum um slysatryggingar almannatrygginga árið 2015 var ætlunin að skýrt yrði að tryggingavernd laganna næði einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma. Frá árinu 2015 hefur því verið kveðið á um í lögunum að ráðherra skuli ákveða með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli vera bótaskyldir, en slík reglugerð hefur hins vegar aldrei verið sett og því ekki skýrt til hvaða sjúkdóma tryggingin nær til.

Ekki náðist í Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins og formanns starfshópsins, við gerð þessarar fréttar.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is