Íbúðauppbygging í Hnoðraholti fari af stað í vetur

Jarðvinnuframkvæmdir eru í fullum gangi í Hnoðraholti þessa dagana. Fyrstu …
Jarðvinnuframkvæmdir eru í fullum gangi í Hnoðraholti þessa dagana. Fyrstu íbúðaframkvæmdir í nýju hverfi munu líklegast hefjast á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðvinna og gatnagerð er nú í fullum gangi í Hnoðraholti í Garðabæ, en búist er við að fyrstu byggingaframkvæmdir á svæðinu hefjist í vetur. Í framhaldinu verður svo úthlutað fleiri lóðum á svæðinu. Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir að fyrstu íbúðir á svæðinu gætu farið að detta í almenna sölu seinni hluta árs 2024 eða á fyrri hluta ársins 2025.

Samtals eru þrjú svæði sem ná frá Arnarnesvegi og að Vífilstöðum sem nú er horft til þess að fari í uppbyggingu á komandi árum, en áformað er að þar verði byggðar á bilinu 1.700 til 2.000 íbúðir í það heila, auk atvinnuhúsnæðis, skóla, leikskóla, búsetukjarna fyrir fatlaða og fleiri íþróttamannvirkja til viðbótar við Miðgarð sem hefur þegar risið í Vetrarmýri. Til samanburðar er þetta örlítið minna af íbúðum en eru í öllu Urriðaholti.

Svæðið skiptist upp í Vetrarmýri, Hnoðraholt suður og Hnoðraholt norður, en það er á síðastnefnda svæðinu þar sem búast má við fyrstu íbúðaframkvæmdunum, en fljótlega í kjölfarið segist Almar vonast til þess að framkvæmdir í Vetrarmýri, þar sem verktakinn Arnarhvoll fékk fimm reiti í desember á síðasta ári í útboði, en samtals greiddi félagið 3,3 milljarða fyrir reitina.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

Uppbygging 200 íbúða fari fljótlega af stað

Hnoðraholt norður er það svæði sem nær frá núverandi byggð í suðvestur hlíð Hnoðraholts að Arnarnesvegi og svo norðan megin á holtinu að landamærum Kópavogs og Garðabæjar þar sem Kópavogur hefur þegar byggt Þorrasali. Á hringtorginu við Arnarnesveg sem er fyrir ofan Lindahverfið hefur verið sprengt inn í klettana og gerð aðkoma fyrir veg inn í hverfið, en sá vegur mun svo tengjast yfir holtið og niður í Vetrarmýri og sameinast veginum Vetrarbraut. Verður þetta jafnframt aðalvegurinn í gegnum þessi nýju hverfi sem eiga eftir að byggjast upp. Ofarlega á hæðinni verður svo þverbraut frá Vetrarbraut sem fær nafnið Vorbraut, en athygli vekur að Vorbraut mun liggja í austurátt og tengjast inn í Þorrasali í Kópavogi og þar með tengja hverfin tvö sem eru í sitt hvoru sveitarfélaginu án þess að það fari í gegnum aðalbrautir eins og oft hefur verið venjan á höfuðborgarsvæðinu hingað til.

Sex reitir í norðvesturhluta Hnoðraholts norður, sá hluti sem er norðan við núverandi byggð og næst upplyfta hringtorginu yfir Reykjanesbraut, er að hluta til í eigu einkaaðila, en þeir reitir verða við nýju götuna Þorraholt (athuga að rugla hér ekki saman Þorraholti og Þorrasölum). Almar segir að unnið sé með lóðaeigendum að skipulagi reitanna, en að þar sé gert ráð fyrir nokkrum fjölbýlishúsum með samtals um 200 íbúðum.

Deiliskipulag fyrir Hnoðraholt norður. Reykjanesbrautin er lengst til vinstri á …
Deiliskipulag fyrir Hnoðraholt norður. Reykjanesbrautin er lengst til vinstri á myndinni og Arnarnesvegur efst. Nýr vegur með nafninu Vetrarbraut sker hverfið og liggur niður í Vetrarmýri. Bláu húsinu eru núverandi byggð og Þorraholt er vestan við Vetrarbraut. Fyrir austan hana og í átt að núverandi byggð í Þorrasölum (hægra megin á myndinni) verða lágreistari fjölbýlishús, einbýlishús og raðhús. Við hringtorgið í miðju myndarinnar er svo gert ráð fyrir leikskóla og búsetukjarna fyrir fatlaða, en þar fyrir sunnan kemur Hnoðraholt suður.

Austar á svæðinu, upp á holtið og í átt að Þorrasölum í Kópavogi, verða svo minni fjölbýlishús, einbýlishús og raðhús samkvæmt skipulaginu, samtals með öðrum 200 íbúðum. Efst á hæðinni, á milli Hnoðraholts norður og þess svæðis sem verður Hnoðraholt suður, er svo áformað að reisa bæði leikskóla og búsetukjarna fyrir fatlaða, en þetta er nú í skipulagsferli.

Úthlutun á næsta ári

Almar segir að unnið sé með einkaaðilunum sem eiga Þorraholt og að hann eigi von á að fyrstu íbúðir á öllu svæðinu muni rísa þar. Telur hann líklegt að framkvæmdir geti hafist í vetur, öðru hvoru megin við áramót. Fljótlega í kjölfarið telur hann að uppbygging Arnarhvols geti hafist í Vetrarmýri og að fyrstu íbúðir í Þorraholti gætu farið að detta á markaðinn árin 2024 og 2025.

Að sögn Almars er svo áformað að ljúka allri jarðvinnu, gatnagerð og lagnavinnu um haustið 2023. Segist hann gera ráð fyrir að á svipuðum tíma, eða á seinni hluta næsta árs verði farið í úthlutun á lóðum á svæðinu. Eins og jafnan er með fjölbýlishús er útboð þeirra lóða miðað að verktökum, en með sérbýlislóðirnar verður líklega horft til einstaklinga að sögn Almars.

Stórvirkar vinnuvélar í framkvæmdum í Hnoðraholti í vikunni.
Stórvirkar vinnuvélar í framkvæmdum í Hnoðraholti í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Horfi til ungs fólks og eldra fólks sem vill minnka við sig

„Með sérbýli í Hnoðraholti, það liggur beinna við að úthluta þar til einstaklinga frekar en til verktaka,“ segir Almar. Spurður hvort farið verði í almenna úthlutun, útboð eða úthlutun eftir sérstökum áherslum segir Almar að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um hvernig ferlið verði nákvæmlega. Hann segir bæjarstjórnina hafa áhuga á að horfa sérstaklega til ungs fólks sem er að komast inn á markaðinn, en einnig til eldra fólks sem er að minnka við sig. Hann tekur þó fram að alltaf þurfi að fara varlega þegar um svona mál sé að ræða. „Lóðir eru gríðarleg verðmæti og það þarf að halda vel á spilunum.“ Segir hann að passa þurfi að í svona tilfellum sé úthlutað til raunverulegra notenda og að fólk fái ekki eignir á afsláttarkjörum og geti svo snúið sér við og selt eignina með hagnaði. „Þetta er mjög vandasamt,“ segir Almar.

Skipulag 700 íbúða í suðurhlíðum fari af stað 2024-25

Eins og fyrr hefur komið fram munu fyrstu íbúða- og atvinnuhúsaframkvæmdir í Vetrarmýri hefjast á svipuðum tíma og í Hnoðraholti norður, en Almar segir að í kjölfarið verði farið í skipulagsvinnu við Hnoðraholt suður. Það er þá það svæði sem liggur frá efstu brún holtsins og niður í átt að Miðgarði og svo út hlíðina fyrir ofan golfsvæði GKG. Segir Almar að sú vinna gæti hafist af krafti 2024-2025 og ef vel gangi gæti það tekið 1-2 ár, en það fari alltaf eftir því hvort eitthvað verði um kærur vegna skipulagsins o.s.frv. „Við horfum á þetta sem heildrænt ferli. Þetta er heilt grunnskólahverfi og þá skiptir máli að uppbyggingin sé jöfn og þétt og að leikskólar og skóli byggist jafnt upp.“

Almar segir að þar sé horft til þess að reisa um 700 íbúðir og verður það hverfi því talsvert fjölmennara en Hnoðraholt norður. Talsverður halli er á þessu svæði og segir hann að horft sé til þess að hafa sérbýli efst og neðst og svo fjölbýlishús í miðri hlíðinni þar sem halli er mestur.

Áður en framkvæmdir á Hnoðraholti hófust hafði verið gert ráð …
Áður en framkvæmdir á Hnoðraholti hófust hafði verið gert ráð fyrir tengingu inn á Arnarnesveginn við hringtorgið. Í dag hefur verið sprengt fyrir veginum og standa nú framkvæmdir upp á holtinu yfir. Ljósmynd/Garðabær

600-800 íbúðir í Vetrarmýri

Í núverandi deiliskipulagi fyrir Vetrarmýri er nú gert ráð fyrir 664 íbúðum, en Almar segir að áfram verði unnið með það og þar gætu orðið allt að 800 íbúðir. Auk þess verður þar eitthvað um atvinnuhúsnæði, auk bílastæðahúss sem verður bygg inn í kantinn við Reykjanesbrautina og segir Almar að það gæti virkað sem ákveðin hljóð- og sjónvörn.

Þeir sem eiga leið um Reykjanesbrautina framhjá Vetrarmýri taka í dag helst eftir íþróttahúsinu Miðgarði sem hefur risið þar á undanförnum misserum. Almar segir að það verði þó ekki eina íþróttahúsið, því knattspyrnuleikvangur og  fleiri íþróttahús verði á svæðinu. „Það verður alveg heilmikil íþróttamiðstöð þarna og mikið íþróttalíf.“

Á milli Vetrarmýri og Hnoðraholts suður, neðarlega í hlíðinni, er svo gert ráð fyrir nýjum grunnskóla. Almar segir að þar sé reiknað með því að það verði grunnskóli fyrir allt grunnskólastigið, en þó hafi engin ákvörðun verið tekin um það. Hann hins vegar bendir á að í Urriðaholtsskóla séu nú nemendur upp í 8. bekk og að það muni á næstu árum trappast upp í 10. bekk. Með hliðsjón af því að þessi hverfi verði svipað stór og Urriðaholtið segir hann að líklega verði grunnskólafyrirkomulagið svipaða.

Skipulag fyrir Vetrarmýri. Eins og sjá má er gert ráð …
Skipulag fyrir Vetrarmýri. Eins og sjá má er gert ráð fyrir knattspyrnuvelli og auka íþróttahúsi. Þá er gert ráð fyrir tengingu yfir Reykjanesbrautina með brú.

Vill góða þjónustu almenningssamganga

Núverandi uppbyggingarhugmyndir borgarlínu gera ekki ráð fyrir að hún nái meðfram Reykjanesbrautinni og fer hún því ekki framhjá bæði þessum nýju hverfum og Urriðaholti. Spurður út í þetta og hvernig hann sjái fyrir sér fyrirkomulag almenningssamganga segir Almar ljóst að þessi hverfi séu ekki beint inn á áhrifasvæði borgarlínu en að hins vegar verði sérstaklega horft til þess að þau verði þjónustu vel með almenningssamgöngum. Bendir hann á að Kópavogur sé einnig að byggja þarna meðfram Reykjanesbrautinni og Hafnarfjörður hafi að einhverju leyti einnig gert það og því þurfi að huga vel að þessu.

Varðandi aðrar tengingar bendir Almar á að það sé hugmynd um jarðbrú yfir Reykjanesbrautina til að tengja bæjarhlutana betur saman. Er það í takt við hugmyndir í Kópavogi þar sem vilji hefur verið til að tengja saman Lindahverfið og Smárahverfið með loki yfir veginn á kafla.

Stefnumótun fyrir Vífilstaði

Það svæði sem hér hefur verið rætt er hluti þess sem oft hefur verið kallað Vífilstaðaland í skipulagi. En hvað með Vífilstaði sjálfa? Almar segir að þar sé einnig horft til uppbyggingar til framtíðar. „Við sjáum fyrir okkur uppbyggingu þar og þá m.a. í formi samfélagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Samhliða þessari uppbyggingu [Vetrarmýri og Hnoðraholt] ætlum við að móta stefnu fyrir Vífilstaðareitinn. Það er langtímamál.“ Tekur Almar fram að þar séu þó sögulegar byggingar eins og spítalinn sem eru táknræn fyrir Garðabæ og að honum sé annt um að skipuleggja fallega í kringum þær. Þá er einnig rétt að taka fram að eigandi núverandi bygginga er ríkið, en Garðabær á landið sjálft. Þarf því að fara í þessa vinnu með ríkinu.

Horft yfir Vífilstaði. Fjær er svo Vetrarmýrin og Hnoðraholtið fyrir …
Horft yfir Vífilstaði. Fjær er svo Vetrarmýrin og Hnoðraholtið fyrir miðju enn fjær. Myndin er tekin áður en framkvæmdir í Vetrarmýri hófust. Ljósmynd/Garðabær

„Eitt þeirra sveitarfélaga sem eigum auðvelt að svara því kalli“

Í dag búa um 18.500 mann í Garðabæ og segir Almar að hann eigi von á því að á næstu 5 árum verði íbúafjöldinn kominn upp í um 22 þúsund og muni svo jafnt og þétt fjölga áfram á þeim árum sem fylgja. „Við höfum rými til að stækka og það er í okkar plönum. Það er mikil umræða um fasteignamarkaðinn og við erum eitt þeirra sveitarfélaga sem eigum auðvelt að svara því kalli,“ segir Almar og bætir við: „Það verður gott framboð af íbúðum í Garðabæ.“

Almar tekur þó fram að passa þurfi að stækkunin verði ekki of hröð. „Við leggjum metnað í að byggja upp bæinn með serka innviði og viljum geta stýrt uppbyggingarhraðanum. Við viljum hafa íbúa sem eru stoltir af góðri þjónustu og of hröð uppbygging getur skemmt hana.“

Ásamt þessum hverfum austan Reykjanesbrautar hefur uppbygging hafist á nokkrum reitum á Álftanesi, en Almar segir að unnið sé með þó nokkur fleiri svæði á Álftanesi.  Þar gildi þó aðeins aðrar hugmyndir en víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, en unnið er út frá stefnunni „sveit í borg.“ Almar segir samt vilja til að byggja upp sterkari kjarna á Álftanesinu sem hafi þá burði í að þjónustu íbúana þar betur. Hins vegar sé vilji til að tvinna það saman t.d. við að þar sé gert ráð fyrir aðeins meira plássi á milli húsa og nálægðar við náttúruna.

mbl.is
Loka