Segja lið FH hafa sýnt agaleysi og vanvirðingu

N1-mótið fór fram á Akureyri um helgina.
N1-mótið fór fram á Akureyri um helgina. Mbl.is/Margrét Þóra

Knattspyrnudeild Þróttar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna skipulags N1-mótsins sem fór fram á Akureyri um helgina. Í henni segir að á mótinu hafi lið sýnt framkomu sem ekki á að sjást á knattspyrnuvellinum; „framkomu sem einkenndist af agaleysi og vanvirðingu gagnvart mótherjum og starfsmönnum mótsins“.

Því hafi Þróttur ákveðið að senda ekki eitt af liðum sínum á leik til að keppa um sæti á mótinu. Er þar vísað í leik FH1 og Þróttar.

Nokkur umræða hefur skapast um skróp Þróttara á samfélagsmiðlum og kom yfirlýsingin síðan seint í kvöld. 

Í henni segir sömuleiðis að ábyrgðaraðilar, það er þjálfarar, dómarar og mótsstjórar, hefðu átt að grípa inn í hegðunina. Það hafi ekki verið gert og harmar Knattspyrnudeild Þróttar það. 

„Félagið tók í kjölfarið ákvörðun um að senda ekki eitt af liðum sínum í kappleik um sæti á mótinu. Var það mat yfirþjálfara félagsins og að enginn ávinningur væri fyrir lið Þróttar að taka þátt í leik sem snérist um eitthvað allt annað en fótbolta,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is