Fór ránshendi um hverfið og sofnaði á pallinum

Vatnsendahverfi við Elliðavatn.
Vatnsendahverfi við Elliðavatn. mbl.is

Maður ráfaði um Vatnsendahverfið í Kópavogi laugardagsnóttina í ránshug. Þar reyndi hann að komast inn á nokkrum stöðum og fór ránshendi þar sem hann komst inn áður en hann sofnaði síðan á pallinum fyrir utan heimili í Fákahvarfi. Þetta kemur fram í færslu í Facebook-hópnum Vatnsendahverfi.

Þóra Jónasdóttir stöðvarstjóri á lögreglustöðinni á Dalvegi í Kópavogi staðfestir þetta í samtali við mbl.is í dag.

Samkvæmt færslunni á Facebook reyndi maðurinn að komast inn í hús í Melahvarfi klukkan 6:20 um morguninn. Skyldi maðurinn þá eftir sundföt, skrúfjárn og fjarstýringar í poka fyrir utan húsið. 

Í annarlegu ástandi

Íbúinn sem gerði færsluna í Facebook-hópnum og býr í húsinu í Melahvarfi sem maðurinn reyndi að komast inn í staðfestir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi tekið í hurðarhúninn hjá þeim og skilið eftir þýfi í poka fyrir utan heimilið. 

Að sögn íbúans í Melahvarfi komst maðurinn inn í íbúð í sama húsi en hafi sem betur fer verið rekinn þar út af íbúum áður en að hann náði að taka eitthvað. Segir íbúinn í Melahvarfi að maðurinn hafi verið í mjög annarlegu ástandi og útlit fyrir að hann hafi verið í einhverskonar vímu. 

„Þegar hann var tekinn stóð hann varla í lappirnar. Hann var á einhverjum lyfjum,“ sagði íbúinn í Melahvarfi um manninn.

Endaði á pallinum

Eftir þessa ránstilraun í Melahvarfi komst maðurinn inn í bíl í Brekkuhvarfi þar sem hann tók tölvu og fleiri muni samkvæmt athugasemd við Facebook-færsluna. Að auki braust maðurinn inn í sendiferðabíl, nýbyggingu í Melahvarfi og í ólæst Pallhýsi af því sem fram kemur í athugasemdum við færsluna. Þá skildi hann eftir annan poka fullan af dóti í hestakerru í hverfinu. 

Kvöldið hjá manninum endaði síðan þegar hann reyndi að komast inn í hús í Fákahvarfi án árangurs. Þar sofnaði hann að lokum á pallinum fyrir framan húsið. Íbúar hússins í Fákahvarfi vöknuðu við það laugardagsmorguninn að ungur maður með poka fullan af þýfi svaf í garðsófa á pallinum þeirra. 

Þau tilkynntu málið til lögreglu sem mætti fljótlega á vettvang og handtók manninn. Í förum mannsins var poki af allskonar munum, zero 8 rafhlaupahjól og tölvutaska. Að sögn Þóru var maðurinn í annarlegu ástandi þegar hann var handtekinn og var því færður niður á lögreglustöð en var síðan sleppt úr haldi fljótlega eftir á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert