Óð í Ölfusá á gúmmístígvélum

Veiðimaðurinn úti í miðri Ölfusá í dag.
Veiðimaðurinn úti í miðri Ölfusá í dag. Ljósmynd/Hinrik Óskarsson

Þeim sem sáu varð ekki um sel þegar maður með veiðistöng óð á grynningum út í Ölfusá, rétt fyrir ofan brúna á Selfossi nú í eftirmiðdaginn. Maðurinn var á gúmmístígvélum og  í björgunarvesti, var hann að renna fyrir fisk.

„Þetta er algjör klikkun hjá manninum,“ sagði Viktor Óskarsson íbúi á Selfossi, sem stóð á vestari bakka Ölfusár og fylgdi með hverju fram fór.

„Árbotninn á þessum slóðum er sleipur og ef manninum skrikar fótur fer hann í strauminn og elginn sem þarna gleypir allt.”

Vaðmennirnir  í Ölfusá voru tveir en annar óð sýnu lengra eða út að svonefndum Jórukletti. Fjölda áhorfenda dreif að, enda er hættuspil sem þetta sjaldséð á Selfossi.

Ekki náðist í lögreglu vegna málsins, sem þó má ætla að hafa stigið inn í atburðarás þessa.

Ölfuá er vatnsmesta fljót landsins.

Skv. frekari upplýsingum mun veiðimaðurinn hafa verið í vöðlum og í negldum skóm. Sá er atvinnuveiðimaður að kortleggja nýtt veiðisvæði í ánni.  

 Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is