Einfalt ráð til upprennandi tónlistarfólks

Tónlistarkonan Salóme Katrín, sem var gestur Dagmála, hefur eitt ráð til þeirra sem stefna á að verða tónlistarfólk og gefa út plötur og það er nokkuð óvenjulegt en afar einfalt.

„Þegar maður er að gefa út svona plötu þá er svolítið eins og maður sé með fyrirtæki. Maður þarf að vera listrænn stjórnandi, sjá um bókhaldið, þarf að passa að allt stemmi, markaðsstjóri, ljósmyndari, bara allt sem hugsast getur.“

Salóme segist þó hafa verið heppin að hafa haft gott bakland, allir hafi verið með henni í liði og því hafi hún ekki verið alveg ein. 

„En kjarnaábyrgðin fellur alltaf á mig. Þannig það gat verið svolítið einmanalegt. Líka ef maður er svona nett stressuð týpa eins og ég þá er auðvelt að finnast maður bara vera alveg í ruglinu. En ég held þetta hafi gengið alveg ágætlega,“ segir hún.

„Eitt sem fólk veit ekki þegar maður er að gefa út svona plötu er hvað maður þarf að senda ótrúlega mikið af tölvupóstum. Þannig ég segi bara best að byrja að æfa sig ef þú ætlar að verða tónlistarmaður.“

mbl.is