Flestir enn að meðtaka áfallið

Margir hafa minnst fórnarlamba árásarinnar í dag.
Margir hafa minnst fórnarlamba árásarinnar í dag. AFP

Fjöldi fólks flúði árásarmanninn í Kaupmannahöfn, sem varð þremur að bana í gær, í gegnum verslun Lindex. Albert Þór Magnússon, umboðsaðili Lindex á Íslandi og í Kaupmannahöfn, segir að starfsfólk geti farið heim til Íslands í kjölfar áfallsins sem fylgdi árásinni.

„Umræðan fær okkur til að hugsa í fyrsta lagi; hvað getum við gert fyrir aðila sem lenda verst í þessum atburði og þá sem hafa særst? Síðan koma upp öryggismál sem okkur hafði ekki órað fyrir, að þurfa að verjast manni sem er með skotárás við verslunina okkar,“ segir hann. 

Albert Þór Magnússon umboðsaðili Lindex í Kaupmannahöfn og á Íslandi.
Albert Þór Magnússon umboðsaðili Lindex í Kaupmannahöfn og á Íslandi. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Skýrt að fólk geti farið heim til Íslands

„Ég veit ekki hvort þessi umræða nái hingað til lands en við munum bera þennan viðburð áfram, á þeim vettvangi sem við störfum,“ segir hann. Flestir séu enn að meðtaka áfallið. Starfsfólki var boðið að fara heim, þangað sem hugurinn leiti þegar erfiðleikar steðja að.

„Við höfum verið skýr með það að fólk geti farið heim til Íslands. Núna er vika til þess að ræða saman og ég tel að við munum nýta þann tíma eins og hægt er til að fara í gegnum þessi atriði sem ég hef nefnt.“

Tvær íslenskar stúlkur vinna í verslun Lindex í Field's og voru á staðnum þegar fólk streymdi inn í verslunina og tilkynnti að maður væri að skjóta. Fólk fór inn í verslunina til að komast að gangi sem leiddi út að götu.

Lokuð næstu vikuna

„Hugur okkar er hjá öllum sem hlutu skaða af, bæði hjá þeim sem hafa misst einhvern og einnig þeim sem eru enn þá að berjast. Hvern skyldi óra fyrir því að þetta gerðist á vettvangi eins og verslunarmiðstöð, þar sem fólk kemur saman til þess að eiga glaðan dag.“

Verslunarmiðstöðin verður lokuð næstu vikuna en árásarmaðurinn hefur þegar verið dæmdur í 24 daga gæsluvarðhald.

mbl.is