„Megum ekki vera börn“

Guðrún Ingveldur Traustadóttir, Inga í daglegu tali, og Geir Jón …
Guðrún Ingveldur Traustadóttir, Inga í daglegu tali, og Geir Jón Þórisson nutu veðurblíðu og ferðalags um Suður-Noreg með góðum hópi. Þau komu við í Tønsberg og ræddu við mbl.is. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Kveikjan að þessari ferð er að mágur minn sem á íbúð á Spáni hringdi í mig í fyrra, hann Símon bóndi, og hann nefnir við okkur Ingu hvort það sé möguleiki að skipta á húsum hérna í Noregi og á Spáni.“ Þetta segir Geir Jón Þórisson í samtali við mbl.is, hinn góðkunni og ákaflega hávaxni fyrrverandi yfirlögregluþjónn, staddur í hópi níu íslenskra ferðalanga í Tønsberg í Noregi.

Hópurinn dvelst í Larvik en hefur farið víða um Suður-Noreg og allt upp eftir til höfuðborgarinnar Óslóar. Dóttir Varðar Leví Traustasonar, fyrrverandi lögregluþjóns sem nú er búsettur í Larvik, heyrði af þessum íbúðaumleitunum og bauð fram hús sitt í Larvik þar sem hennar fjölskylda var á leið til Ítalíu en hópurinn sem nú er í heimsókn eru systkini Varðar og makar þeirra.

Íslenski hópurinn í bakaríinu við miðbæjartorgið í Tønsberg, systkini Varðar …
Íslenski hópurinn í bakaríinu við miðbæjartorgið í Tønsberg, systkini Varðar Leví Traustasonar og makar þeirra. Frá vinstri: Elín Pálsdóttir, Kornilíus Traustason, Ester Jacobsen, Sigríður Sverrisdóttir, Símon Eðvald Traustason, Ingibjörg Jóhanna Jóhannesdóttir, Geir Jón Þórisson, Vörður Leví Traustason og Guðrún Ingveldur Traustadóttir. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Auðvitað hefur lengi staðið til að koma og heimsækja þau,“ heldur Geir Jón áfram, „þessi fjölskylda er mjög náin og tengd og hefur verið mikið saman. Það var bara kominn tími á það að þetta ferðalag yrði farið,“ segir yfirlögregluþjónninn fyrrverandi sem varð sjötugur nú undir apríllok og átti sér tæplega 37 ára feril í lögreglunni.

Stærsta stafkirkja Noregs skoðuð

Hann kveður hópinn hafa fengið úrvalsveður nær allan tímann enda hitastigið í Tønsberg 28 gráður þegar þetta spjall á sér stað á bakaríinu og kaffihúsinu Nøtterø Bakeri & konditori við miðbæjartorgið.

Ekki hafi verið slegið slöku við hvað skoðunarferðir áhrærir, víða farið í nágrenni Larvikur, meðal annars í siglingar auk þess sem hópurinn hafi skoðað stærstu stafkirkju Noregs. „Náttúrufegurðin er mikil hérna, þetta er svo margbrotið landslag,“ segir Geir Jón en kona hans, Guðrún Ingveldur Traustadóttir, Inga, systir Varðar Leví, bjó um þriggja ára skeið í Ósló á sínum tíma þar sem hún lagði stund á sjúkraliðanám.

Geir Jón átti tæp 37 ár í lögreglunni, hefur frá …
Geir Jón átti tæp 37 ár í lögreglunni, hefur frá mörgu að segja og skoðanir á ýmsu eftir langan feril.

Geir Jón lætur vel af samgöngumálum, járnbrautarlestir hafi skilað hópnum auðveldlega hvert sem halda skyldi. „Ef það væri nú bara hægt að gera þetta heima,“ segir hann, „ég held að þetta vanti bara í okkur Íslendinga af því að sagan hefur ekki kennt okkur þetta og við erum raunar langt á eftir í öllum samgöngum, hugsaðu þér bara ef hægt væri að taka lest til Akureyrar eða Egilsstaða, það myndi alveg skipta sköpum,“ segir hann og bætir því við að þótt lestir muni líklega seint bruna um Ísland væri mikil samgöngubót í að bæta og breikka vegina og fækka einbreiðum brúm til muna.

Fékk koss og knús fyrir póstburð

Geir Jón kveðst hafa nóg að sýsla í sólskini eftirlaunaáranna. „Ég vinn sjálfboðaliðastörf hjá Rauða krossinum heima í Eyjum, var reyndar formaður hans í átta ár, ég syng í kirkjukórnum og karlakórnum og svo hafa börnin skapað mér mikla vinnu því þau flytja til Eyja og kaupa hús sem þarf að endurnýja og vinna í og ég er búinn að vera í því bara í fullu starfi,“ segir Geir Jón og brosir breitt.

Yfirlögregluþjónninn fyrrverandi er engin smásmíði eins og gjarnan hefur komið …
Yfirlögregluþjónninn fyrrverandi er engin smásmíði eins og gjarnan hefur komið í ljós á myndrænan hátt í fjölmiðlum og víðar. Morgunblaðið/RAX

Þá sé Inga dugleg að setja honum fyrir verkefni heima og nú blandar hún sér í umræðuna. „Þegar við fluttum til Eyja ákvað ég að hætta í þessari vaktavinnu og fór í Póstinn og þá fór hann að labba með mér og hjálpa mér að bera út og við vorum bara hvort sínu megin við götuna. Fyrir það fékk hann koss og knús,“ segir Inga og þau hjónin hlæja. Hún veiktist svo og þurfti að leggja útburðinn af og er nú komin á eftirlaun eins og eiginmaður hennar.

Ekkert annað en að gefa öndum

Sem fyrr segir var Geir Jón tæp 37 ár í lögreglunni. „Ég var rúm 16 ár í lögreglunni í Eyjum og 20 ár í Reykjavík,“ segir hann og kveður stórar og miklar breytingar hafa orðið á íslenskri lögreglu þann tíma sem hann var þar. „Ég helgaði mig alveg starfinu, vinnan kom fyrst og fjölskyldan var í öðru sæti, þannig starfaði ég, sem var náttúrulega bilun og ekki til eftirbreytni. En það má segja að [búsáhalda]byltingin hafi svona endanlega tæmt tankinn hjá mér. Ég segi við konuna „þegar ég verð sextugur ætla ég að hætta og við förum til Eyja“, því ég gat ekki hugsað mér að vera á eftirlaunum í Reykjavík, þar er ekkert annað að gera en að gefa öndunum brauð,“ segir Geir Jón.

Kapteinn Rannvá Olsen og sonur hennar Pétur Ingimar Sigurðsson taka …
Kapteinn Rannvá Olsen og sonur hennar Pétur Ingimar Sigurðsson taka við styrk frá Landssambandi lögreglumanna fyrir hönd Hjálpræðishersins. Með þeim á myndinni eru Heiðar Guðnason, þáverandi forstöðumaður Samhjálpar, Geir Jón og Gissur Guðmundsson, þáverandi stjórnarmenn í líknar- og hjálparsjóði LL.

Kveður hann hafa verið ákaflega gott að koma aftur heim til Eyja, „Eyjamenn tóku bara á móti mér eins og ég hefði rétt skroppið, það var alveg dásamleg upplifun,“ segir þessi týndi sonur sem sneri að lokum heim á ný.

Við snúum talinu að málefnum löggæslu og segist Geir Jón ánægður með lögregluna á Íslandi eins og staðan sé í dag. „Ég verð samt að játa að ég er afskaplega sár og svekktur yfir að lögreglan sé ekki búin að ná þeirri stöðu sem hún var í áður en hrunið skall á, launalega og starfsmannalega séð. Það vantaði hátt í hundrað lögregluþjóna bara í Reykjavík. Það var árið 2012 og það hefur lítið breyst,“ segir þessi gamla kempa laganna varða.

Tekur greiningardeildina alvarlega

Hann kveður verkefnin sífellt aukast og verða þyngri. Til að ná að klára þau séu menn teknir af götunni og færðir í inniverkefni. „Gatan hefur svolítið liðið fyrir það en mér finnst lögreglustjórinn sem er núna á höfuðborgarsvæðinu [Halla Bergþóra Björnsdóttir] vera á mjög góðri leið að laga þetta. Hún er að byggja hægt og rólega upp, það gerist ekkert með látum auðvitað, og núna finnst mér ég vera að sjá breytingar,“ segir Geir Jón.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff heilsa …
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff heilsa upp á landann við forláta Packard-bifreið embættisins. Geir Jón við öllu búinn. Eggert Jóhannesson

Talið berst að breyttri heimsmynd og hryðjuverkaógn og dæmin þar nærtæk eftir mannskæða skotárás í Ósló aðeins örfáum dögum fyrir þetta huggulega kaffisamsæti með yfirlögregluþjóninum fyrrverandi, auk annarrar í Kaupmannahöfn í gær. Er Ísland næst þegar kemur að skotmörkum hryðjuverkamanna sem einskis svífast?

„Auðvitað óttast maður það,“ svarar Geir Jón, „ég tek alvarlega það sem greiningardeild ríkislögreglustjóra er að gefa út og búin að gera í mörg mörg ár og benda á hættuna. En það sem hefur verið okkur til trafala er rannsóknir væntanlegra brota sem geta átt sér stað,“ segir hann og vísar til svokallaðra forvirkra rannsóknarheimilda lögreglu.

Haldið fram að lögreglan njósni um fólk

„Þarna er um að ræða rannsóknir sem búa okkur undir það sem gæti átt sér stað og hugsanlega er að fara að eiga sér stað. Ég fann fyrir þessu þegar ég var yfirlögregluþjónn í Reykjavík og sótti fundi tvisvar-þrisvar sinnum á ári í höfuðborgum Norðurlandanna, hitti þar yfirmenn og við ræddum stöðu lögreglu á Norðurlöndunum. Þá fannst mér það dapurt þegar þeir sögðu mér að þeir gætu ekki látið mig hafa ákveðnar upplýsingar um brotamenn vegna þess að við hefðum ekki heimildir til að handfjatla eða rannsaka þau gögn,“ rifjar Geir Jón upp alvarlegur í bragði.

Geir Jón ásamt Steinþóri Hilmarssyni rannsóknarlögreglumanni.
Geir Jón ásamt Steinþóri Hilmarssyni rannsóknarlögreglumanni. mbl.is

Hann þykist þó nú vera farinn að eygja tón eða samtal sem gangi í þá átt að hilli undir rýmri heimildir lögreglu úti við sjóndeildarhringinn. Hluti umræðu í þjóðfélaginu einkennist þó af misskilningi. „Því hefur of oft verið haldið fram að lögreglan ætli að fara að njósna um fólk. Hún hefur nóg að gera í öðru. Það hefur alltaf staðið til að búa svo um hnútana að við getum komið í veg fyrir alvarlega hluti sem við erum að sjá í nágrenni okkar. Auðvitað geta hlutir gerst þótt lögregla hafi þessar heimildir en hún er þá fljótari að upplýsa mál eins og við sjáum bara í Noregi og Danmörku og víða í Evrópu,“ segir Geir Jón.

Lögregla á þessum stöðum sé búin að kortleggja vissa hópa og tengja þá saman fyrir fram. Svo komi einhver hlekkur úr þessum hópi og sé þá strax hægt að upplýsa mál að miklu jafnvel öllu leyti. „Þetta er það sem við þurfum að geta gert líka heima. Ég er ekki á því að við eigum að fara að vopnavæða alla lögreglu. Við erum með mjög vel þjálfaða sérsveit og við erum líka með almenna lögreglumenn á vettvangi sem eru vel þjálfaðir í notkun á skammbyssum og öðrum vopnum, hafa þjálfun á þessi vopn og aðgengi að þeim – sem var ekki þegar ég var í löggunni,“ segir Geir Jón.

„Það mun aldrei gerast“

Bætir hann því við að vilji sé til að halda sem lengst í það ástand að lögreglumenn þurfi ekki að ganga um með skotvopn sem hluta af persónulegum búnaði. Hins vegar verði að tryggja líf og heilsu lögreglumanna sem fást við fólk í „paranoju“ og miklu fíkniefnaástandi sem skynji ekki muninn á réttu og röngu.

Samtökin Siðbót afhentu lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu „kúlulánasiðbót með alvæpni“ um …
Samtökin Siðbót afhentu lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu „kúlulánasiðbót með alvæpni“ um hrunleytið. Geir Jón tók þá við poka með „seðlum“ og trésleifum úr hendi Helgu Bjarkar Grétudóttur. Morgunblaðið/RAX

„En dropinn holar steininn eins og sagt er og ég er að vonast til þess að nú fari menn að skilja þetta þegar þeir sjá þetta gerast sí og æ í nágrannalöndum okkar. Við erum ekkert eyland, við erum með opin landamæri og þangað geta menn komið frá hvaða ríki sem er innan Schengen,“ segir Geir Jón og rifjar upp komur Hells Angels-manna frá öðrum löndum, svo sem árið 2013 auk eldri dæma.

„Þá var farið í mjög harðar aðgerðir og þeir stoppaðir og sendir til baka sem þótti mjög vafasamt en það stóðst svo. Ég man að áður en þetta kom til sagði yfirmaður lögreglu í Finnlandi mér það að við ættum von á þessum mönnum til Íslands. Það var nokkrum árum áður og ég sagði „það mun aldrei gerast“, en svo kom að því. „Við erum bara svo nálægt þessu öllu saman, við megum ekki vera börn í þessu, við verðum bara að horfa á staðreyndir og það sem fólk er að upplifa allt í kringum okkur,“ segir Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, að lokum yfir kaffibolla í Tønsberg, í fríi með fríðum hópi frá Íslandi.

mbl.is