„Merkingarlaust og tilgangslaust ofbeldi“

Vegfarendur sjást hér leggja blóm og kerti við Field's verslunarmiðstöðina …
Vegfarendur sjást hér leggja blóm og kerti við Field's verslunarmiðstöðina í Kaupmannahöfn dag þar sem árásin var gerð í gær. AFP

„Manni finnst þetta auðvitað bara hörmuleg tíðindi og þau koma beint í kjölfar skotárásar í Noregi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, í samtali við mbl.is, um skotárásina sem átti sér stað í verslunarmiðstöðinni Field‘s í Kaupmannahöfn í gær.

„Þetta er auðvitað bara fullkomlega merkingarlaust og tilgangslaust ofbeldi sem er fjarri okkar lífsýn hér á Norðurlöndunum.“

Það sé áhyggjuefni að skotárásir sem þessar séu orðnar tíðar.

„Manni líður svona eins og þessir atburðir sem við höfum svona einna helst þekkt vestanhafs séu einhvern veginn að færast í aukana hér í löndunum í kring um okkur.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hákon

Vopnalöggjöfin til skoðunar

Maður getur ekki annað en hugsað að þetta gæti gerst hér?

„Já, það er nú eitt af því sem við höfum verið með í undirbúningi á vettvangi stjórnvalda og það er endurskoðun á vopnalöggjöfinni,“ segir Katrín.

Aðgengi að vopnum sé einna helst það sem auki líkurnar á árásum sem þessum. Því sé mikilvægt að stjórnvöld geri vel í þeim málum.

„Það hefur verið í undirbúningi og hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar að það þurfi að skerpa betur á vopnalöggjöfinni.“ Dómsmálaráðuneytið hafi verið með vopnalöggjöfina til skoðunar.

„Maður eiginlega skilur auðvitað ekki hvað veldur svona atburðum en maður sér að það hefur áhrif, aðgengi að vopnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert