Mikil ábyrgð hvílir á þjálfurum

Viðureign Fylgismanna og Snæfellsness á N1 mótinu.
Viðureign Fylgismanna og Snæfellsness á N1 mótinu. mbl.is/Margrét Þóra

Ósæmileg hegðun foreldra á íþróttamótum barna er ekki ný af nálinni að sögn Hafrúnar Kristjánsdóttur íþróttasálfræðings. „Við breytum því ekki að fólk hagi sér eins og fífl, en ég held samt að félögin gætu unnið meira með að búa til og innleiða gildi í sitt starf.“

Rannsóknir sýna að áhugi og stuðningur foreldra við íþróttaiðkun barna sinna sé til þess fallinn að þau endist lengur í íþróttinni. Í því felist forvarnaráhrif, enda dragi íþróttaiðkun almennt úr áhættuhegðun. Því væri ekki lausn að foreldrar hættu að mæta á leiki barna sinna. „Við viljum þennan stuðning. Eðlileg hegðun foreldra er að hvetja áfram liðið sitt án þess að einbeita sér að úrslitum og frammistöðu. Þeir eigi frekar að fylgjast með því hvort barnið sýni íþróttamannslega hegðun og virðingu í samskiptum og hvort liðið sé að ná framförum.“

N1-mótið í knattspyrnu fór fram á Akureyri um helgina, þar sem tvö þúsund krakkar á aldrinum ellefu til tólf ára tóku þátt. Mótið gekk vel fyrir sig en þó fóru á kreik sögur af ósæmilegri hegðun foreldra á leikjum barna sinna. Þá tók lið á vegum Þróttar þá ákvörðun að mæta ekki í leik um fimmta sætið gegn liði FH. Í kjölfarið birti knattspyrnudeild Þróttar yfirlýsingu þess efnis að yfirþjálfari og þjálfari liðsins hefðu tekið þessa ákvörðun í ljósi þess að hegðun liðs FH hefði borið vott um agaleysi og vanvirðingu. Þar var jafnframt bent á að ábyrgðaraðilar hefðu brugðist þegar „leikar fóru úr böndunum“.

Hafrún segir ómögulegt að taka afstöðu til þess hvort ákvörðun Þróttar hafi verið rétt eða ekki, enda hafi hún ekki vitneskju um hvað hafi átt sér stað. „Almenna reglan er auðvitað að þú mætir til leiks en stundum vill maður ekki setja börn í aðstæður sem maður metur óæskilegar.“

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »