„Sá bara haug af ljósum“

Tónleikagestir héldu að tónleikum Harry Styles hafi verið frestað um …
Tónleikagestir héldu að tónleikum Harry Styles hafi verið frestað um eina klukkustund eftir skotárásina. Mikil óreiða var á svæðinu að sögn Íslendings sem þar var. AFP

Matthías Már Magnússon var staddur í neðanjarðarlest í Kaupmannahöfn þegar lestin stöðvaðist og öllum var skipað að fara út. Hann var á leiðinni á tónleika með Harry Styles, með dóttur sinni og vinkonu hennar, þegar 22 ára árásarmaður hleypti af skotum í verslunarmiðstöðinni Field's og varð þremur að bana.

„Metróið stoppar bara þarna og öllum sagt að fara út. Þetta var ekki á stoppinu á Field's heldur næsta fyrir ofan. Ég sá bara haug af ljósum í áttina að mollinu, og hinum megin líka. Það var bara verið að loka öllu,“ segir hann og voru gefnar þær skýringar að í gangi væri lögregluaðgerð.

Sagt að tónleikunum myndi seinka um klukkustund

„Svo fer ég að tala við einhverja Dani og fyrstu upplýsingar eru að þetta hafi verið minniháttar og það sé búið að ná árásarmanninum. Og að við þyrftum að ganga lengri leið á tónleikana, sem og við gerum. Það labba allir rólega og við þurfum að taka sveig að tónleikunum,“ segir hann og var þangað komið um sjöleytið en tónleikarnir áttu að hefjast klukkan átta. 

„Við setjumst bara inn og það var svolítið af löggum.“

Sautján þúsund aðdáendur ætluðu að sjá Harry Styles í gærkvöldi og fékk Matthías ekki önnur skilaboð en að tónleikarnir ættu að fara fram. Á meðan þyrlur sveimuðu yfir staðnum fór fólk að tínast í sætin sín.

„Og við setjumst bara í sætin okkar. Síðan kemur einhver á sviðið og segir að tónleikarnir byrji klukkan níu. Þá eru bara sautján þúsund manns í símanum að fylgjast með fréttum og fólk fer að tínast út,“ segir hann. 

„Það lítur út eins og tónleikunum hafi verið aflýst áður en við vissum það.“

Tilfinningasamt í höllinni

„Svo er náttúrulega tilkynnt að tónleikarnir verði ekki haldnir. Ég er með tvær þrettán ára sem eru miklir aðdáendur Harry Styles, og ég líka. Það var áhugavert hljóð sem kom í höllinni þegar það var tilkynnt að tónleikarnir færu ekki fram. Og eðlilega, á meðan allt þetta gengur á,“ segir hann. 

Í framhaldinu var aðdáendum hleypt út úr höllinni í hollum og allir sendir í neðanjarðarlestina. 

„Allir i sjokki, grátandi yfir árásinni og yfir því að missa af tónleikunum,“ sagði hann. Lestin hafi brunað framhjá öllum stoppunum og öllum hent út á endastöðinni. 

„Við enduðum bara á að labba heim, eins og hálfs tíma ganga.“ 

Tónleikar Harry Styles sem áttu að fara fram í gær áttu upphaflega að fara fram árið 2020. Þó er stutt síðan Matthías keypti sína miða.

„Þetta bíður bara betri tíma.“

mbl.is