Tók í hurðarhúna með hníf í hendi

Maðurinn tók í hurðarhúninn með hníf í hendi.
Maðurinn tók í hurðarhúninn með hníf í hendi. mbl.is/Skjáskot

Ungur maður gekk um Flatahverfi í Garðabæ á laugardagsmorgun með hníf í hendi og tók í hurðarhúna í þeim tilgangi að reyna að komast inn. Einn íbúi í hverfinu, Gunnsteinn Geirsson, náði myndskeiði af manninum í Ring-dyrabjöllunni sinni.

Gunnsteinn segir í samtali við mbl.is að honum hafi verið illa brugðið við að sjá myndskeiðið þegar hann vaknaði og segir það blessunarlegt að maðurinn hafi ekki komist inn. 

Í myndskeiðinu sést til mannsins hylja andlit sitt eins og hann viti að upptaka sé við húsið. Gengur hann þá rösklega að hurðarhúninum og reynir að opna hurðina áður en hann lætur sig hverfa.

Reyndi að komast inn á fleiri stöðum

Gunnsteinn segir að maðurinn hafi reynt að komast inn á fleiri stöðum enda fékk Gunnsteinn margar athugasemdir þess efnis við færslu sem hann setti inn á Facebook-hópnum Garðabær-íbúar. Sást til dæmis til mannsins í næstu götu við að taka í hurðarhúna.

„Hann hefur verið að ganga um hverfið, þarna um sjö,“ segir Gunnsteinn. Að hans sögn er nú búið að senda myndskeiðið og tilkynna málið til lögreglu og er það því til rannsóknar.

„Það er óhugnanlegt að þetta sé í gangi. Maður heyrði af þessu í Garðabænum fyrir nokkrum árum og svo hefur maður ekkert heyrt en svo virðist sem þeir séu komnir af stað aftur.“

mbl.is