Andlát: Örn Steinsen

Örn Steinsen.
Örn Steinsen.

Örn Steinsen, fv. framkvæmdastjóri KR, lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. júlí síðastliðinn, 82 ára að aldri.

Örn fæddist 11. janúar árið 1940 í Vesturbæ Reykjavíkur og ólst þar upp til 21 árs aldurs. Foreldrar hans voru Vilhelm Steinsen bankafulltrúi og Kristensa Marta Sigurgeirsdóttir húsfreyja.

Örn lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og stundaði nám við Íþróttaskólann að Laugarvatni. Hann vann ýmis störf á yngri árum, m.a. hjá Flugfélagi Íslands í Kaupmannahöfn sumarið 1961. Þar fékk hann ferðabakteríuna, vann næsta árið á ferðaskrifstofunni Lönd og leiðir og fór svo aftur að vinna fyrir Flugfélag Íslands, þá við Lækjargötu í Reykjavík, þar sem hann vann í farmiðasölu í 10 ár. Eftir það var hann framkvæmdastjóri Útsýnar, árin 1974-1986. Þá stofnaði hann Ferðaskrifstofuna Sögu, ásamt Pétri Björnssyni, og starfaði þar til 1992. Örn var auglýsingastjóri hjá Icelandair Review í nokkur ár en árið 2000 tók hann við sem framkvæmdastjóri KR hjá uppeldisfélagi sínu og lauk þar starfsferli sínum árið 2007.

Örn lék knattspyrnu í KR með yngri flokkum og síðar með meistaraflokki. Hann varð Íslandsmeistari með KR fjórum sinnum og þrisvar bikarmeistari. Örn lék alls 111 leiki með meistaraflokki KR en hætti í boltanum aðeins 24 ára. Örn lék 8 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði eitt mark.

Örn hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín fyrir KR og íþróttahreyfinguna, fékk þannig stjörnu KR sem og gullmerki KR, ÍBR, KSÍ og KÞÍ, Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands, sem hann tók þátt í að stofna árið 1970. Örn var einnig góður í golfi, var meðal stofnenda Golfklúbbsins Odds í Urriðalandi og starfaði jafnframt um árabil innan Oddfellowreglunnar. Örn átti sæti í fjölda nefnda og stjórna, einkum fyrir KR, og átti m.a. sæti í stjórn Kynnisferða og Félags íslenskra ferðaskrifstofa.

Eftirlifandi eiginkona Arnar er Erna Guðrún Franklín, f. 1941, fv. fjármálastjóri. Börn þeirra eru Arna Katrín, Stefán Þór, Anna Guðrún og Brynja Dögg Steinsen.

Barnabörnin eru 15 talsins og barnabarnabörnin fimm.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »