Ætlaði fram úr flutningabíl en endaði á vegriði

Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á sjötta tímanum í gær var tilkynnt um fólksbíl sem ætlaði að taka fram úr flutningabíl með þeim afleiðingum að eftirvagn rakst utan í fólksbílinn.

Fólksbíllinn endaði á vegriði. Brak var á veginum en enginn slasaðist. Ekki er vitað hvort ökumaður flutningabílsins gerði sér grein fyrir árekstrinum enda mikill stærðarmunur á ökutækjum. Ökumaður nam ekki staðar og ók af vettvangi, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti alls 64 málum frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Starfsmenn fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sinntu 153 málum sem úthlutuð voru til lögreglumanna á landsvísu.

Tilkynnt var um fjögur ungmenni með eggvopn í Hafnarfirði um hálfsexleytið í gær. Sá sem tilkynnti um málið sá ungmennin hlaupa af vettvangi en eggvopnið var skilið eftir. Lögregla fór á vettvang og staðfesti að um garðverkfæri væri að ræða.

Vildi fá afnot af síma ökumanna

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna aðila í annarlegu ástandi í Árbæ laust fyrir klukkan 22 í gærkvöldi. Þegar lögregla kom á vettvang kvaðst aðilinn hafa reynt að stöðva bifreiðar til þess að fá afnot af farsíma ökumanna þar sem hann hafði týnt sínum eigin. Ættingi aðilans kom á vettvang, sótti hann og kom honum í skjól.

Um svipað leyti var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við bílasölu í Árbæ. Lögregla fór á vettvang og gaf sig á tal við viðkomandi. Aðilinn kvaðst einungis vera að skoða bifreiðarnar og að það hafi aldrei verið inni í myndinni að brjótast inn í þær.

Grunsamlegar mannaferðir

Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna grunsamlegra mannaferða í Vesturbænum um tíuleytið í gærkvöldi. Lögregla fór á vettvang og ók um hverfið án þess að sjá aðila sem pössuðu við lýsingu þess sem tilkynnti um málið.    

Um hálfsexleytið í gær var tilkynnt um sláttutraktor sem sat fastur á umferðareyju á Hafnafjarðarvegi. Lögregla fór á vettvang til að tryggja umferðaröryggi og óskað var eftir dráttarbíl.

Haft var samband við lögreglu klukkan 21 í gærkvöldi þar sem ökumaður bifreiðar var grunaður um ölvunarakstur. Tilkynnt var um að vegfarendur væru að reyna að sporna við því að ökumaðurinn færi af stað. Þegar lögreglan kom á vettvang skömmu síðar var bifreiðin óhreyfð í bifreiðarstæði og enginn gaf sig á tal við lögregluna.

Tilkynning barst einnig vegna þriggja ungmenna sem trufluðu umferð á níunda tímanum í gær með því að hlaupa á milli bifreiða á gatnamótum í Kópavogi.

mbl.is