Dómurinn féll Elkem í vil

Elkem á Grundartanga.
Elkem á Grundartanga. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfu járnblendiverksmiðjunnar Elkem um að fella úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra frá 9. júlí 2020 þar sem ríkisskattstjóri ákvað að lækka fjárhæð gjaldfærðra vaxta í skattskilum um u.þ.b. 160 milljónir árlega á árunum 2015 til 2019.

Þannig voru mál með vexti að Elkem gaf út skuldabréf í nóvember 2012 upp á um 1,8 milljón króna sem selt var til móðurfélags þess í Noregi í tengslum við svokallaða fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

Ágreiningur reis um hvort Elkem gæti dregið vaxtakostnaðinn af láninu frá tekjuskattsstofni, en með úrskurði 9. júlí 2020 ákvað ríkisskattstjóri að hafna frádrætti vaxtanna.

Hafa almennt forræði á fjármagnsskipan sinni

Héraðsdómur féllst ekki á að brotið hefði verið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu við rannsókn málsins, eins og Elkem hélt fram, enda laut ágreiningurinn fyrst og fremst að túlkun á ákvæðum tekjuskattslaga, einkum 31. gr., 1. mgr. 57. gr. og ákvæði 57. gr. b.

Í dómnum kom fram að með vísan til þess að félög í atvinnurekstri hefðu almennt forræði á því hvernig þau kjósa að haga fjármagnsskipan sinni, þar með talið hvort fjármagn beri reksturinn með eigin fé eða lánsfé, var ekki fallist á að sýnt hefði verið fram á að beita ætti 1. mgr. 57. gr. laganna vegna útgáfu skuldabréfsins.

Fjárhæðin skilaði sér í rekstrartengd verkefni

Þá féllst héraðsdómur ekki heldur á að frádráttur vaxtanna ætti ekki að falla undir 31. gr. enda lagt til grundvallar að lánsfjárhæðin hefði skilað sér í rekstrartengd verkefni Elkem.

Skilyrði áðurnefndar 31. gr. tekjuskattslaga er að um sé að ræða kostnað sem gangi til að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við. Ríkið hafði hins vegar hafnað því að óumdeilt væri að allar athafnir Elkem hefðu miðað að því.

Þvert á móti hafi málið, að mati ríkisins, snúist í grundavallaratriðum um að Elkem hafi tekið þátt í viðskiptum við tengda aðila sem höfðu það ekki að markamiði af afla Elkem tekna, heldur að móðurfélag Elkem gæti hagnast á viðskiptum með gjaldeyri í gegnum svokallaða seðlabankaleið. Eins og áður kom fram féllst dómstóllinn ekki á þessi rök. 

mbl.is