Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hótanir í hans garð og fjölskyldunnar hafi vissulega truflað sig á meðan heimsfaraldur Covid-19 stóð sem hæst og Þórólfur var andlit takmarkana á daglegu lífi fólks.
Hann segir að honum hafi þó tekist vel að einbeita sér að vinnunni þrátt fyrir að hann hafi hugsað reglulega til hótana.
„Svo komu þarna hótanir sem voru þess eðlis að maður vissi ekki hvort að maður ætti að taka þeim alvarlega eða ekki. Voru að beinast að fjölskyldu manns, beinast að því hvar maður skyldi nú passa sig, fólk vissi hvar maður ætti heima, hver væri konan manns eða börnin manns og svona,“ segir Þórólfur.
Þórólfur er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem hann ræðir yfirvofandi starfslok, ferilinn sem barna- og sóttvarnalæknir og heimsfaraldur Covid-19 sem hann þreytist ekki á að minna á að er ekki lokið.