Iceland Airwaves verður í ár haldin í samstarfi við markaðsráðstefnuna SAHARA Festival sem fram fer samhliða tónlistarhátíðinni í byrjun nóvember. SAHARA Festival er ráðstefna um stafræna markaðssetningu sem haldin var í fyrsta skipti í fyrra á vegum auglýsingastofunnar SAHARA, en þá voru fyrirlesarar frá fyrirtækjum eins og Nike, TikTok, Smirnoff og Spotify.
„Það gekk rosa vel í fyrra, við náðum að fylla Gamla Bíó, meira en 300 manns, þrátt fyrir ýmsar leiðinlegar takmarkanir, eins og þurfa að krefja alla gesti um neikvæð Covid-hraðpróf,“ er haft eftir Davíð Lúther Sigurðarsyni, framkvæmdastjóri SAHARA, í tilkynningu. Kveðst hann hæstánægður með samstarfið við Iceland Airwaves.
„Það var alltaf planið að tengja þessa viðburði saman, en svo þurfti náttúrulega að aflýsa Airwaves í fyrra,“ segir hann einnig.
Davíð býst við talsvert fleiri gestum í ár og ráðstefnan verður því haldin í Silfurbergssal Hörpu 3. nóvember, auk þess sem haldin verður vinnustofa og lokahóf á KEX Hostel. Þá er von er á enn fleiri fyrirlesurum frá leiðandi risum í bransanum, en tilkynnt verður um á þá næstu vikum.
„Við viljum líka hafa stemminguna á SAHARA Festival létta og í hátíðaranda, þannig þetta smellpassar alveg. Miðinn á ráðstefnuna veitir líka aðgang að öllum tónleikum hátíðarinnar.“
Iceland Airwaves tónlistarhátíðin fór síðast fram árið 2019 en hún féll niður síðustu tvö ár vegna heimsfaraldursins.
Ísleifur Þórhallsson framkvæmdastjóri hátíðarinnar segist í tilkynningu vera spenntur fyrir samstarfinu við SAHARA Festival.
„Þetta kom mjög vel út hjá þeim í fyrra. Nú þegar markaðurinn fyrir upptekna tónlist hefur færst nær alfarið yfir á streymisveitur og aðra stafræna vettvanga, skiptir markaðssetning í gegn um net- og samfélagsmiðla sífellt meira máli, fyrir tónlistarmenn og útgáfur til að koma sér á framfæri.“
Löng hefð sé líka fyrir svipuðu samstarfi erlendis frá. „Við horfum til hátíða eins og South By Southwest í Austin í Texas, þar sem eru bransaráðstefnur og fyrirlestrar yfir daginn, og svo partýstuð og tónleikar á kvöldin,“ segir Ísleifur, en Iceland Airwaves verður einnig með sína eigin ráðstefnu 4. nóvember, daginn eftir SAHARA Festival, þar sem stiklað verður á stóru í alþjóðlega tónlistar- og tónleikageiranum.
Meðal helstu listamanna sem hafa verið bókaðir á Iceland Airwaves í ár eru HAM, Metronomy, Reykjavíkurdætur, Gugusar og Flott.