Skipar tvo starfshópa fyrir húsnæðismál

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur skipað tvo starfshópa tileinkaða húsnæðismálum. Annars vegar starfshóp um húsnæðisstuðning, og hins vegar starfshóp um endurskoðun húsaleigulaga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu.

Hóparnir eiga að vinna að skilgreindum verkefnum í takti við skýrslu starfshóps þjóðhagsráð um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaðnum sem kynnt var í maí.

Báðir starfshóparnir eiga að skila tillögum sínum fyrir 30. september.

Taka mikilvæg skref í haust

Starfshópur um húsnæðisstuðning á að endurskoða húsnæðisbætur, vaxtabætur, sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga og skattfrjálsa ráðstöfun séreignasparnaðar. 

Starfshópur um endurskoðun húsaleigulaga á að endurskoða lögin „með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.“

„Með þessari vinnu viljum við fylgja eftir áherslum ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum um aukið húsnæðisöryggi og bættan húsnæðisstuðning og á grunni mikilvægra tillagna sem starfshópur á vegum þjóðhagsráðs kynnti í maí. Við væntum þess að taka mikilvæg skref strax í haust enda mikilvægt að taka fast utan um húsnæðismálin og vinna hratt að umbótum,“ er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningunni.

mbl.is