Snorri kom konu til bjargar inni í Field's

Snorri Þrastarson var í verslunarmiðstöðinni Field's þegar að skotárásin átti …
Snorri Þrastarson var í verslunarmiðstöðinni Field's þegar að skotárásin átti sér stað. AFP

Snorri Þrastarson kom konu sem varð fyrir skoti til bjargar í skotárásinni í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Hann kom að konunni þar sem blæddi mikið úr fæti hennar. Tók hann þá af sér beltið og herti utan um fótlegginn til að stöðva blæðinguna. Þetta kemur fram í viðtali fréttastofunnar TV2 við Snorra.

Snorri er einn af nokkrum Íslendingum sem voru í verslunarmiðstöðinni Field's þegar að maður gekk þar inn með riffil og skaut þrjá til bana á sunnudaginn.

Snorri vinnur í Danmörku en fjölskylda Snorra hefur rekið KFC þar í landi í þó nokkur ár og hefur hann starfað fyrir fyrirtækið við innkaup og starfsmannamál. Á sunnudaginn var hann staddur í einu útibúi KFC í Field's þegar skotárásin hófst. 

„Þetta var bara venjulegur dagur í vinnunni, héldum við,“ segir Snorri í samtali við TV2. Segist hann hafa skyndilega heyrt háan hvell sem fékk hann og aðra starfsmenn KFC til að hætta vinnu. Þeir hafi síðan áttað sig á því hvað var að ske þegar fleiri hvellir heyrðust og fólk kom hlaupandi inn á veitingastaðinn.

Kom að stelpu sem var látin

Fór Snorri og annað starfsfólk þá að koma fólki inn í bakherbergi og eldhús staðarins til að veita þeim skjól frá byssumanninum sem gekk um í kringum veitingastaðina í Field's og skaut að fólki.

Segir Snorri að þegar árásarmaðurinn hafi haldið annað hafi hann og nokkrir aðrir sem földu sig inn á KFC farið út til að athuga hvort að þeir gætu hjálpað öðrum að fela sig. 

Þá kom hann að ungri stelpu sem hafði verið skotin. Þeir fundu engan púls á henni og sáu það að hún væri látin. Skammt frá stelpunni kom Snorri að konu sem lá við botn rúllustiga og hafði orðið fyrir skoti í lærið. Að sögn Snorra blæddi talsvert úr læri konunnar og tók hann því af sér beltið og festi það utan um læri konunnar til þess að stöðva blæðinguna. 

Komust Snorri og konan í öruggt skjól og segir Snorri í samtali við TV2 að honum liði ágætlega þrátt fyrir allt. 

„Ég held að ég sé í lagi en ég er viss um að áfallið sé eitthvað sem kemur seinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert