Stöðugt landris næstu ár kæmi ekki á óvart

Land hefur risið um 33 sm við Öskju frá því …
Land hefur risið um 33 sm við Öskju frá því að það mældist fyrst fyrir rúmu ári. Myndin sýnir Öskjuvatn og fremst er sprengigígurinn Víti. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það sem okkar líkön hafa verið að sýna og það sem virðist skýra þessar mælingar er að kvika sé að safnast fyrir á nokkurra kílómetra dýpi undir Öskju,“ segir Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Land hefur risið um 33 sm við Öskju frá því að það mældist fyrst í byrjun ágúst 2021 og hefur haldist stöðugt.

„Við erum vissulega komin með tæpt ár núna en það ætti ekkert að koma okkur á óvart ef við fengjum annað eða jafnvel nokkur svona ár þar sem Askja rís jafnt og þétt og kvika safnast fyrir á nokkurra kílómetra dýpi.“

Týpískur undanfari eldgoss

„Það má segja að þetta sé týpískur undanfari eldgoss en það er ekkert í augnablikinu sem bendir til að það sé yfirvofandi, þetta er ein af þessum eldstöðvum sem við erum að fylgjast náið með og má í raun segja að um sé að ræða virkni umfram eðlilega bakgrunnsvirkni,“ segir Kristín.

Þá geti kvikusöfnun jafnvel hætt án þess komi til eldgoss. „Ef við værum farin að nálgast eldgos myndum við búast við því að jarðskjálftavirkni færi að aukast og það er eitthvað sem við höfum ekki séð.“

Miðja þenslunnar er við vesturjaðar Öskjuvatns við Ólafsgíga en engin gögn benda til þess að hún hafi breyst. Snjóþungt hefur verið á svæðinu undanfarið en ekki sé ástæða til þess að fara á staðinn og lesa af mælinum.

„Rafmagnsframleiðsla með vind- og sólarorku er á staðnum og er nægjanlega mikil til að bæði halda mælitækinu gangandi og senda okkur gögn í bæinn, þannig að það er engin ástæða til að fara á staðinn, við fáum gögn frá mælinum á hverjum degi.“

mbl.is