Þörf á aðgerðum sem nái til annarra en skuldara

Húsnæðisátak er farið í gang og viðbúið er að framboðshliðin …
Húsnæðisátak er farið í gang og viðbúið er að framboðshliðin fari að taka eitthvað við sér á næsta ári. mbl.is/sisi

Meira samræmi verður að vera milli peningastefnunnar og fjármálastefnunnar, að mati Friðriks Jónssonar, formanns BHM. Aðgerðir til þessa séu einhæfar og ómarkvissar. „Það þarf að skattleggja peningana þar sem þeir eru.“

Á undanförnum fjórum árum hefur fjármagn í umferð hér á landi aukist um tæplega 41 prósent. Á þessum sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um rúmlega 19,4 prósent. Þetta bendir Friðrik á í samtali við mbl.is, og telur að um sé að ræða handhvömm Seðlabankans í stjórn peningamála. 

„Það er gömul kenning og ný í hagfræðinni að ósjálfbær uppbygging peningamagns flæði inn í verðlagið og valdi verðbólgu.“

Það sem áður fór í verðbréf fer nú í fasteignir

Hann segir helsta hvatann hér á landi vera þróun fasteignaverðs, þó að undanfarið hafi innflutt verðbólga einnig lagt sín lóð á vogaskálarnar. „Aukið peningamagn sem fór í umferð vegna aðgerða Seðlabankans, fór beint inn í fasteignamarkaðinn og keyrir upp markaðinn.“

Hann bendir á að í aðdraganda bankahrunsins árið 2008 hafi það einmitt verið einkennandi að fjármagn í umferð hafi aukist gríðarlega. Þá hafi meirihluti þess fjármagns aftur á móti farið inn í verðbréfamarkaðinn, sem sé ekki tekinn með inn í jöfnuna við mat á verðbólgu, líkt og í tilfelli fasteigna. 

Fyrstu kaupendur ekki vandamálið

Nýlegar aðgerðir Seðlabankans bitna helst á skuldurum og fyrstu kaupendum, að mati Friðriks. 

„Fyrstu kaupendur eru samt ekki vandamálið. Stóru aðilarnir á markaðnum eru fjárfestar. Þeir sem eru að kaupa dýrustu íbúðirnar og jafnvel staðgreiða á yfirverði, kaupa íbúðir til þess að leigja út eða sem standa tómar.“

Friðrik telur aðgerðir þær, sem ríkið hefur gripið til samhliða aðgerða peningastefnunefndar, hafi verið ómarkvissar eða ekki beint gegn þeim sem mest áhrif hafi á það sem gerist á fasteigna- og fjármagnsmarkaði. 

Friðrik Jónsson, formaður BHM.
Friðrik Jónsson, formaður BHM. Ljósmynd/Aðsend

Ótti afsaki ekki aðgerðarleysi

Fyrir þinglok kynnti ríkisstjórnin efnahagsaðgerðir sem koma til með að kosta 27 milljarða króna. 

„Í þessum 27 milljarða aðgerðum beindist ekkert að fjármálamarkaðnum. Það er ekki verið að hækka tímabundinn fjármagnstekjuskatt, ekki verið að setja á hvalrekaskatt, ekki bankaskatt. Á sama tíma eru bankarnir að auka arðsemiskröfur sínar.“

Friðrik leggur til að hægt væri að breyta skattheimtu á fasteignum og fasteignakaupum með því að setja hærri skatt á íbúðir sem séu til annarra nota, til að mynda til útleigu.

Spurður hvort hann óttist ekki að slíkt myndi skila sér beint inn í hækkun leiguverðs, segir hann að ótti við slíkar afleiðingar megi ekki vera afsökun aðgerðarleysis. Annars mætti skoða að setja þak á leiguverð. 

Ekki tilbúin að grípa til aðgerða gagnvart öðrum

„Það skýtur skökku við að Seðlabankinn geti tekið ákvarðanir um að hækka skattheimtu af lántakendum, með hækkun stýrivaxta og enginn segir neitt. En ríkið er ekki tilbúið að grípa til samsvarandi aðgerða sem myndu ná til annarra en bara skuldara.“

Hann segir að BHM hafi bent á það, í umsögn sinni vegna fjárhagsaðgerðanna, að skoða þyrfti hluti eins og að minnka muninn á fjármagnstekjuskatti og launaskatti tímabundið. Þá væri eðlilegt að leggja á hvalrekaskatt í ljósi fyrirsjáanlegra tekna af auðlindatengdri starfsemi. 

Spurður hvað hann sjái fyrir sér þegar hann talar um tímabundnar aðgerðir, segir hann að eðlilegt væri að leggja umrædda skatta á til eins árs og meta svo þörfina jafnt og þétt. 

„Við erum í umhverfi efnahagslegra áskorana en það er misskipt hverjir eru að taka á sig höggið af þeim áskorunum.“

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað stýrivexti í von um að ná …
Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað stýrivexti í von um að ná betri tökum á verðbólgunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veita ungum fjölskyldum samkeppnisforskot

Fjármálaráðherra hefur ítrekað lýst því að hann telji að leysa þurfi vanda húsnæðismarkaðarins á framboðshliðinni. Friðrik tekur undir það að vandamálin liggi á framboðshliðinni.

Það þurfi engu að síður að setja hindranir í veg fjárfesta til þess að taka þátt í markaðnum, meðan framboðið er svo takmarkað, og veita ungum fjölskyldum sem vanti þak yfir höfuðið, samkeppnisforskot. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert