Höfðu ekki orku í að ganga sjálfar til baka

Fyrstu björgunarsveitarmenn komu að konunum rétt upp úr klukkan 9 …
Fyrstu björgunarsveitarmenn komu að konunum rétt upp úr klukkan 9 og náðu að gefa þeim heitt að drekka, næringu og þurr föt. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slysavarnafélagið Landsbjörg segir að konur sem urðu veðurtepptar í tjaldi ofarlega á Fimmvörðuhálsi í nótt séu á leið til byggða. 

Björgunarsveitum barst útkall rétt fyrir klukkan 6 í morgun frá tveimur konum, en þær voru orðnar blautar og kaldar eftir baráttuna við veðrið í nótt. Þær náðu að hringja í Neyðarlínuna hraktar eftir nóttina og óskuðu eftir aðstoð.

„Fyrstu björgunarsveitarmenn komu að konunum rétt upp úr klukkan 9 og náðu að gefa þeim heitt að drekka, næringu og þurr föt. Þær höfðu ekki orku í að ganga sjálfar til baka og því var beðið eftir að björgunarsveitarfólk á sexhjólum kæmist nær þeim. Klukkan 11 voru hjólin komin á vettvang og lögðu fljótlega af stað með konurnar til mótst við björgunarsveitarbíla sem staddir voru á einhverju neðar á Fimmvörðuhálsinum,“ segir í tilkynningu. 

Þá segir, að eftir hádegi hafi allir verið komnir niður á láglendið. Konurnar héldu til byggða og björgunarfólkið heim á leið eftir að hafa tekið daginn snemma.

mbl.is
Loka