Loka glugg­un­um og kynna næturstrætó á skemmtistöðum

Mikil læti myndast oft utandyra í miðbæ Reykjavíkur þegar fólk …
Mikil læti myndast oft utandyra í miðbæ Reykjavíkur þegar fólk kemst ekki heim eftir að hafa skemmt sér á skemmtistöðum. mbl.is/Ari Páll

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur, segir það ákaflega gott að fá næturstrætó aftur enda sé um að ræða öryggisatriði. Hann segir næturstrætó vera part af framkvæmdum sem borgin lagðist í til að koma til móts við kvartanir íbúa miðbæjarins.

Hluti íbúa miðbæjarins hefur kvartað undan hávaða um helgar og þá hafa margir sem skemmta sér í miðbænum þurft að bíða í heillangan tíma eftir því að fá leigubíl.

Einar segir að eftir tvo samráðsfundi með fulltrúum íbúa, Samtökum reykvískra skemmtistaða, Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og fleiri aðilum hafi verið ákveðið að stofna spretthóp sem greip strax til aðgerða.

Hann segir þá að mikilvægt hafi verið að fjölga valkostum fyrir fólk til að komast heim til sín úr miðbænum vegna hávaða frá almenningi utandyra að nóttu til. 

Gjarnan er löng bið eftir leigubílum og því var ákveðið að Alexandra Briem fulltrúi Reykjavíkur í stjórn Strætó leitaði eftir samstöðu í stjórninni um að hefja strax akstur á ákveðnum leiðum til að leysa fráflæðisvanda úr miðbænum,“ segir Einar.

Þá bætir Einar við að næturstrætó sé öryggisatriði. 

„Lögreglan hefur bent á að löng leigubílaröð skapi hættu á ólgu meðal fólks.

Þakkar fulltrúum skemmtistaða fyrir snögg viðbrögð

Einar tekur einnig fram að skemmtistaðir muni gera sérstakt átak innan sinna raða til að tryggja að ekki verið farið yfir hávaðamörk. Sem dæmi um það nefnir hann að dyraverðir muni passa að hafa glugga lokaða svo hávaði berist ekki út og að hátalarar verði ekki utandyra á næturnar ásamt fleiri ráðstöfunum. 

Einar þakkar fulltrúum Samtaka Reykvískra skemmtistaða sérstaklega fyrir snögg viðbrögð og vel unnin störf. 

Birgitta Líf [Björnsdóttir] á Bankastræti Club og Geoffrey [Þór Huntington-Williams] á Prikinu hafa tekið vel í ábendingar og komið þeim greiðlega til sinna félaga. Þá stendur einnig til að vekja athygli á næturstrætó inni á skemmtistöðum með sérstöku kynningarátaki sem enn er í mótun. Þetta er til fyrirmyndar.

Í lokin tekur Einar fram að það sé stefna meirihlutans að miðborgin verði áfram lífleg og skemmtileg þar sem krár og skemmtistaðir fái að þrífast í sátt og samlyndi við íbúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert