Sumarið skrapp í frí

Margt fólk hefur leitað í skálann í Landmannalaugum vegna leiðindaveðurs á svæðinu, í því skyni að gista og fresta för sinni um einn dag. Aðrir fóru af stað snemma í morgun til þess að lenda ekki í slæmu veðri.

„Þetta er fyrsti dagurinn í sumar með svona veður. Vanalega erum við að fá þessi veður í ágúst. Við erum ekki óvön því að fá svona lægðagang yfir okkur. Það er erfitt fyrir gesti að meðhöndla dótið sitt í þessu veðri,“ segir Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála hjá Ferðafélagi Íslands. 

Hressir krakkar í Hrafntinnuskeri í dag.
Hressir krakkar í Hrafntinnuskeri í dag. Ljósmynd/FÍ

Góð stemning í Hrafntinnuskeri

„Þeir hópar sem eru komnir af stað lögðu af stað snemma í morgun til þess að koma sér burt áður og koma sér á næsta tjaldstað áður en versta veðrið gengur yfir,“ segir hann.

Einhverjir ákváðu að vera um kyrrt í skálanum í Hrafntinnuskeri yfir eina aukanótt.

Við skálann í Hrafntinnuskeri í dag, en ferðaveður er lítið …
Við skálann í Hrafntinnuskeri í dag, en ferðaveður er lítið spennandi. Ljósmynd/FÍ

Á meðal þeirra voru hressir krakkar sem höfðu það notalegt í skálanum, og tjaldbúar sem vöknuðu snemma og tóku saman tjöldin sín.

Meðfylgjandi myndskeið var tekið í Hrafntinnuskeri fyrr í dag.

Búist er við skánandi veðri eftir því sem líður á vikuna og ætti vindinn að lægja umtalsvert á morgun á landinu öllu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert