Skógræktin hættir við skógræktarverkefni í Skorradal

Skógræktin hefur verið með töluverð umsvif í Skorradal og er …
Skógræktin hefur verið með töluverð umsvif í Skorradal og er þar með starfsstöð. Hætt hefur verið við plöntun þar eða henni frestað vegna ágreinings við sveitarfélagið um skipulagsmál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skógræktin hefur ákveðið að hætta við gróðursetningu birkis í landi Bakkakots í Skorradal og fresta áframhaldandi gróðursetningu í hlíð Dragafells. Stofnunin hefur ekki ákveðið frekari viðbrögð við stöðvun sveitarfélagsins á gróðursetningu og höfnun framkvæmdaleyfis. Sviðsstjóri vonast til að samkomulag takist við Skorradalshrepp um breytingar á aðalskipulagi.

Hreppsnefnd Skorradalshrepps hefur staðfest ákvörðun skipulagsnefndar sveitarfélagsins um að Skógræktin fái ekki framkvæmdaleyfi fyrir gróðursetningu í landi jarðanna Stóru Drageyrar og Bakkakots en þar hafði skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins stöðvað framkvæmdir. Telur hreppurinn að gróðursetningin sé ekki í samræmi við aðalskipulag.

Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, segir, þegar hann er spurður um viðbrögð stofnunarinnar, að verið sé að skoða málið þar innanhúss. Ljóst sé að ekkert verði gróðursett í Skorradal í sumar sem hann segir synd þar sem Íslendingar þurfi á því að halda til að kolefnisjafna starfsemi í landinu og ná loftslagsmarkmiðum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt. Spurður hvort til greina komi að kæra niðurstöðu sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar segir Hreinn að það verði skoðað eftir sumarleyfi. Samtal sé í gangi við sveitarfélagið um skipulagsmál og betra væri að ná góðri lendingu með því móti.

Vildu rækta birkiskóg

Gróðursetja átti trjáplöntur í landi þessarra tveggja jarða í Skorradal sem Skógræktin hefur umsjón með, í samvinnu við tvö erlend fyrirtæki.

Hreinn segir að Skógræktin hafi verið í samvinnu við skoska fyrirtækið Mossy Earth sem vinnur að endurheimt vistkerfa víða um heim. Fyrirtækið hafi áhuga á að rækta birkiskóg á Íslandi og var samið um að gróðursetja í nokkra birkilundi í Bakkakotslandi. Þar hafi einhvern tímann verið birkiskógur, sjálfsagt upp í 400-500 metra hæð. Ákveðið hafi verið að gróðursetja lundi upp undir 300 metra.

Þetta fyrirtæki safnar framlögum erlendis til að láta rækta upp náttúrulega skóga og velur sér samstarfsaðila. Það vinnur líka að kolefnisverkefnum en það átti ekki við í verkefninu í Skorradal.

Skógræktin hafi verið í góðri trú að hefja plöntun í Bakkakoti. Stofnunin hafi jörðina til afnota og hafi verið að gróðursetja þar í áratugi. Þess vegna hafi ný túlkun sveitarfélagsins á stefnu í aðalskipulagi komið á óvart.

Þegar afstaða sveitarfélagsins lá fyrir ákváðu Skógræktin og skoska fyrirtækið að hætta við gróðursetningu í Skorradal og fundið var nýtt svæði í Þjórsárdal. Þar verði þeim plantað vestan við Skriðufell, á Seljasand.

Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert