Svar Katrínar valdi verulegum vonbrigðum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Hákon

Formaður og varaformaður Viðreisnar telja ólíklegt að ríkisstjórnin geti haft forystu um þá orkuöflun sem þörf er talin á til að Ísland nái markmiðinu um full orkuskipti fyrir árið 2040.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni flokksins, og Daða Má Kristóferssyni varaformanni.

Þorgerður og Daði sendu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf í vikunni þar sem þau lögðu til að ráðherrann beitti sér fyrir skipun spretthóps til að undirbúa frumvarp um auðlindagjald vegna vindorkuvera, sem afgreiða mætti á Alþingi í haust.

Ráðherra geri grein fyrir orkuöflunaráformum

Segir í svari Katrínar að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefði ákveðið að skipa starfshóp til að gera tillögur að löggjöf um vindorku. Hópurinn muni einnig skoða hvernig ná megi markmiðum ríkisstjórnarinnar um að byggja upp vindorkuver á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif.

Þá verði skipaður annar starfshópur til að vinna samantekt um möguleika á nýtingu vinds á hafi við lögsögu Íslands.

Þorgerður og Daði eru ekki ánægð með svar Katrínar og segja það valda verulegum vonbrigðum.

Þau segja nauðsynlegt að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra geri nánari grein fyrir orkuöflunaráformum með tímasettri áætlun um hvernig afla eigi orku vegna orkuskipta og grænna markmiða í atvinnuuppbyggingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert