Datt í gíg Vesúvíusar þegar hann tók sjálfu

Eldfjallið Vesúvíus er við borgina Napólí.
Eldfjallið Vesúvíus er við borgina Napólí. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bandarískur ferðamaður hlaut minniháttar meiðsl þegar hann féll í gíg eldfjallsins Vesúvíusar á Ítalíu en hann hafði verið að reyna að ná í símann sinn sem hann missti í gíginn.

Maðurinn og fjölskylda hans komust á topp eldfjallsins eftir að hafa hunsað hlið sem meinaði ferðamönnum að halda lengra, að því er kemur fram í frétt Guardian.

Samkvæmt fréttamiðlum á svæðinu var maðurinn að taka sjálfsmynd þegar hann missti símann sem rann í gíginn. Hann reyndi þá að klifra niður gíginn til að endurheimta símann, en féll nokkra metra eftir að hann missti jafnvægið.

Leiðsögumenn Vesúvíusar voru fyrstir á vettvang og tókst þeim að bjarga manninum úr gígnum sem slapp með einungis marbletti og skrámur.

Ferðamaðurinn og ættingjar hans þrír, sem voru í för með honum, eiga yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa farið inn á svæðið en leiðin var greinilega merkt þannig að hún væri stórhættuleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert