Kæra og krefjast nýs umhverfismats

Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina.
Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina. Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir

Íbúar á og í grennd við veghelgunarsvæði fyrirhugaðs Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf hyggjast kæra málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þetta staðfestir Helga Kristín Gunnarsdóttir, sem komið hefur fram fyrir hönd íbúasamtaka sem kalla sig Vini Vatnsendahvarfs. Kærendur eru nú orðnir um þrjátíu talsins.

Samtökin höfðu áður lagt fram kæru vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en var henni þá vísað frá á þeim grundvelli að þau gætu ekki talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrslausn málsins. Þessi kæra er því undirrituð af mun fleiri íbúum sem búa nær framkvæmdasvæðinu, Hollvinasamtökum Elliðarárdals og svo Vinum Kópavogs, að sögn Helgu.

Umferðarspáin löngu sprungin

Í kærunni verður meginkrafan sú að framkvæmt verði nýtt umhverfismat, en í dag á að byggja framkvæmdirnar á umhverfismati sem framkvæmt var fyrir nítján árum. „Einnig viljum við að vegalagningin verði endurskoðuð þannig að vegurinn verði lagður að mestu leyti í gegnum stokk eða göng og gatnamótunum breytt, svo þetta verði ekki ljósastýrð gatnamót, enda mun það ekki anna þessari umferð.“

Skipulagsstofnun hefur lýst því yfir að hún telji sig ekki eiga rétt á því að kalla eftir nýju umhverfismati. „Það er rangt því þeir hafa alltaf rétt á að kalla eftir nýju umhverfismati. Þetta mat er frá árinu 2003 og það er bara ekki rétt að byggja svona stóra framkvæmd á tveggja áratuga gömlu mati.“

Helga er sannfærð um að útkoman yrði önnur ef framkvæmt væri nýtt umhverfismat í dag. „Umferðarspáin í þessu eldra er löngu sprungin. Í raun hefur Vegagerðin ekki rétt á því að byggja þennan veg. Við teljum að ástæðan fyrir því að þeir vilja ekki fara í þetta nýja umhverfismat, sé sú að þá falli niður þessar forsendur sem þeir eru að byggja framkvæmdina á.“

Það skortir allt tillit til umhverfis og íbúa, að mati Helgu. „Það virðist ekkert mega hafa áhrif á eða tefja þessa framkvæmd.“

Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert