Listahátíðin LungA er haldin á Seyðisfirði á ári hverju. Skipuleggjendurnir Þórhildur Tinna Sigurðardóttir og Helga Guðrún Þorbjörnsdóttir tala vel um Seyðisfjörð en viðurkenna að því fylgi áskoranir að halda listahátíð í svona litlum bæ.
Vissulega eru Egilsstaðir rétt handan við heiðina og þar megi finna margt sem á þarf að halda. Það sé helst tækjabúnaður sem sé mikilvægt að bóka með fyrirvara í Reykjavík og flytja hann austur.
„Þú ert bara kominn til þess að vera og það er ekki hægt að redda neinu,“ segir Þórhildur og þess vegna séu samskipti við listamenn mikilvæg og ákveðin væntingastjórnun. Þá sé mikilvægt að taka það skýrt fram við listamennina að þegar þeir komi með verk á LungA þá megi búast við því að þetta verði LungA-útgáfa af því verki.
„Þetta er grasrótarhátíð enn þá þótt hún sé orðin 23 ára. Við erum bara að vinna með það sem við höfum og það er líka fegurð í því að kynnast verkinu þínu á nýjan hátt og vera opin fyrir áskorununum. Ég er búin að vera að gera þetta síðan 2015 og ég er með þumalputtareglu: Aldrei panikka. Þetta verður alltaf fallegt, það verður alltaf gaman.“