Tófan hefur fært sig niður á láglendið

Birgir Hauksson við greni á bæjarhóli í Mikley í Skagafirði.
Birgir Hauksson við greni á bæjarhóli í Mikley í Skagafirði. Ljósmynd/Kári Gunnarsson

„Við erum búnir að vinna eitt greni í Akrahreppi hinum forna og þar bíða að minnsta tvö ef ekki þrjú. Það virðist vera frekar mikið af tófu,“ segir Kári Gunnarsson, grenjaskytta í Skagafirði. Hann annast m.a. grenjavinnslu í Norðurárdal ásamt Birgi Haukssyni. Þar spókaði mórauð tófa sig þegar ljósmyndari átti leið hjá.

Grenjavinnslan hefst í byrjun júní og stendur út júlí. Veður hefur verið óhagstætt undanfarið, norðanátt og kuldi, miklar þokur og svo bættist við úrhellisrigning.

Unna grenið var í bæjarhólnum í Mikley, eyðibýli í Akrahreppi en vestan Héraðsvatna. Í því voru fjórir hvolpar. Auk þess unnu þeir greni í alþjóðlega fuglafriðlandinu Borgarskógum. Þar er mjög mikið fuglalíf, þótt andfuglum virðist hafa fækkað. Borgarskógar eru á milli Héraðsvatna og Miklavatns. Þeir byrja rétt sunnan við flugvöllinn á Sauðárkróki og teygja sig fimm kílómetra inn eftir. Í greninu voru sex hvolpar.

„Staðan er mikið breytt frá því sem áður var, bæði fyrir refinn og veiðimenn. Tófan hefur flutt sig úr fjöllunum og niður á láglendið. Láglendisgreni þekktust ekki áður fyrr. Grenin í Mikley og Borgarskógum eru rétt yfir sjó, eins neðarlega og tófurnar komast,“ segir Kári. Tófan hefur lært að nýta sér skógrækt og lúpínubreiður til að dyljast í. Kári nefnir t.d. að búið sé að planta meira en einni milljón trjáa á Silfrastöðum í Norðurárdal.

Engin leið að finna greni í skógi

„Það á enginn við tófu í skóginum enda engin leið að finna bústaðina hennar þar. Það er reynt að skjóta þær þegar þær koma með hvolpana út úr skóginum á haustin,“ segir Kári.

Sömu sögu er að segja utar í Skagafirði, eins og í Langholti, inni í Hjaltadal og víðar þar sem komnir eru skógar. Þar eru tófurnar að færa grenin inn í skógana og úti á Skaga fela þær sig í lúpínubreiðum. „Tófurnar komast allt í kringum þig óséðar í skógunum og lúpínunni, finna lykt af þér og ná að varast þig,“ segir Kári.

Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert